Daglegt brauð eru mannréttindi allra

Árni og Kristín:

Aðgangur að mat er ein af forsendum réttlætis og friðar. Á þetta erum við minnt í Faðir vorinu þegar beðið er: „Gef oss í dag vort daglegt brauð.“

Kross sem minnir á daglegt brauð

Fimmtung mannkyns skortir daglegt brauð. Samt er nægur matur til í heiminum. Veruleiki syndar og niðurbrots birtist í því að hungur er til staðar í heiminum í miklum mæli.

Við, sem höfum nóg, eigum að leggjast á eitt og deila því sem við höfum. Þannig tökum við orð Jesú í 25. kafla Mattheusarguðspjalls alvarlega, þar sem hann segir „Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“

Frá sjónarhóli kristinnar trúar er ekki bara maklegt og réttvíst að deila fæðu með þeim sem skortir hana, heldur setur Guð þá kröfu á fólkið sitt að það „leysi fjötra rangsleitninnar“, „gefi frjálsa hina hrjáðu“ og „miðli hinum hungruðu af brauði sínu“ (Jes 58.6). Þetta spámannlega sjónarhorn færir okkur að rótum vandans og beinir athygli að kerfinu sem viðheldur ástandi hungurs og skorts.

Marteinn Lúther skrifaði í Fræðunum meiri um bænina „Gef oss í dag vort daglegt brauð“ að hún væri í raun bæn fyrir öllu sem manneskjan þarfnast til að lifa og njóta lífsins á hverjum degi og gegn hverju því sem stendur í vegi fyrir því. Þegar kemur að díakoníu og hjálparstarfi er því ekki nóg að gefa með sér af brauðinu sínu ef því fylgir ekki krafa um réttlæti til handa þeim sem líða undan fátækt.

Það er til nóg til af brauði til að fæða allan heiminn. Því hlýtur hungrið í heiminum að stafa af misskiptingu gæða. Sum hafa meira en nóg, önnur hafa alltof lítið. Slíkt er óásættanlegt. Hvort sem misskipting á rætur að rekja til græðgi, sögulegra atburða, náttúruhamfara eða vanþekkingar, á hún ekki að líðast. Við erum kölluð til að vinna gegn misskiptingu. Við erum kölluð til að uppræta hungur.

Daglegt brauð eru mannréttindi allra.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.