Beatrix, Bill og Bechdel

Bechdel prófið er einfaldur mælikvarði á sýnileika kvenna í kvikmyndum. Það byggist á þremur spurningum:

  1. Eru tvær eða fleiri konur í kvikmyndinni?
  2. Tala þær saman?
  3. Tala þær um eitthvað annað en karla?

Ef þessum þremur spurningum er svarað játandi þá telst myndin hafa staðist Bechdel prófið.

Það er skemmst frá því að segja að ótrúlega margar kvikmyndir standast ekki þetta einfalda próf. Meðal þeirra mynda sem eru nefndar í myndbandinu hér að ofan er Pulp Fiction eftir Quentin Tarantino. Hún stenst semsagt ekki Bechdel prófið. Það sama er ekki hægt að segja um Kill Bill eftir sama höfund. Raunar mætti segja að konur fái heldur betri útreið úr þeirri mynd en karlar.

Við horfðum á Kill Bill um helgina (Kría í annað sinn, Árni í fimmta) og fengum stórfenglega drápsreið Beatrix Kiddo beint í æð (í gamla túbusjónvarpinu okkar, nota bene). Beatrix er mikil hetja og enginn stendur henni á sporði í bardagalist og herkænsku. Vegna þess að uppgjörið er við gömlu klíkuna, og konur voru í meirihluta í henni, sýnir myndin mikið af samskiptum Beatrix og hinna stelpnanna.

Við höfðum Bechdel í huga þegar við horfðum á Kill Bill. Það kom á daginn að myndin stenst prófið með sóma. Beatrix talar og tekst á fjölda kvenna, svo sem hina hnífalipru Vernitu, ósvífna klíkuforingjann O-Ren Ishii og hina eineygðu Elle. Litríkar aukapersónur koma líka við sögu. Hún kemur þeim öllum fyrir kattarnef án þess að neinn karl komi þar við sögu.

Hin mjúku gildi kvennanna svífa ekki yfir vötnum í Kill Bill – og myndin er í raun tryllingslega ofbeldisfull. Svo mjög að mörgum þykir nóg um. En hún gerir konum samt sem áður nógu hátt undir höfði til að hafa fleira en eina kvenpersónu í burðarhlutverki, láta þær eiga samskipti og orðastað, um eitthvað annað en karlmenn.

Þess vegna stenst hún Bechdel prófið.

In

One response

  1. […] var haldin í gær og nú liggur fyrir hverjir fengu styttuna eftirsóttu. Á Feminist Frequency er Bechdel prófið lagt fyrir myndirnar sem voru tilnefndar sem besta kvikmynd ársins. Af þeim standast aðeins […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.