Ár sannleiksnefndanna

Nú eru ár sannleiks- og rannsóknarnefndanna.

Rannsóknarnefnd Alþingis sendi fyrr á árinu frá sér skýrslu þar sem sannleikurinn um Hrunið er dreginn fram. Í vikunni kom svo út skýrsla um skýrsluna frá Alþingisnefndinni sem fór yfir hana. Fyrir skemmstu var lofað sannleiksnefnd á vegum þjóðkirkjunnar sem á að rannsaka viðbrögð kirkjunnar þegar Sigrún Pálína Ingvarsdóttir steig ásamt fleiri konum fram árið 1996 og sagði frá ofbeldinu sem hún hafði mátt þola af hálfu Ólafs Skúlasonar, sem þá gegndi embætti biskups Íslands.

Eitt er mikilvægt að hafa í huga varðandi sannleiksnefndirnar: Þær gefa okkur ekki annaðhvort-eða niðurstöður heldur kafa þær á dýptina, setja í samhengi, skýra.

Það þurfti ekki rannsóknarnefnd Alþingis til að segja okkur að hrunið stafaði af því að kerfið og kerfiskallar og -konur hefðu brugðist. Við vissum það þegar allt fór á annan endann í október 2008.

Það þurfti enga þingmannanefnd til að segja okkur að ráðherrarnir hefðu brugðist. Við vissum það þegar Geir sagði „Guð blessi Ísland“ í sjónvarpinu.

Það þarf enga þjóðkirkjusannleiksnefnd til að segja okkur að kirkjan brást árið 1996. Við vissum það áður en biskup sagði það í Morgunblaðsviðtali í ágúst 2010.

Sannleiksnefndir gefa nefnilega ekki annaðhvort-eða niðurstöður. Þær kafa á dýptina.

Og við þurfum á því að halda núna.

Þess vegna olli það vonbrigðum að Eygló Harðardóttir, þingkona, sem var annars flott í viðtalinu við Egil Helgason í Silfrinu í dag, skyldi segja að það þyrfti enga rannsóknar- eða sannleiksnefnd til að skoða einkavæðingu bankanna.

Við erum ósammála því. Nú er einmitt tími rannsóknar- og sannleiksnefnda. Við skulum velta við steinum og skoða ofan í kjölinn og læra af reynslunni.

Við skuldum okkur sjálfum það.
Við skuldum börnunum okkur það.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.