Óttatímar

Haustlauf

Þegar manneskjan verður óttaslegin bregst hún við með vissum hætti. Það eru eiginlega náttúrulegir varnarhættir sem gera vart við sig þegar óttinn grípur okkur. Þessir varnarhættir miða að því að verja okkur sjálf, nema hvað.

Það merkilega er að við bregðumst eins við þegar eitthvað ógnar okkur í raun og veru – og þegar eitthvað ógnar heimsmynd okkar og lífsskoðunum. Varnarhættirnir sem við sýnum þegar eitthvað ögrar viðteknum skoðunum og gildum, geta lokað okkur inni í ótta og andúð á því sem er öðruvísi.

Við sjáum margskonar varnarhætti og óttaviðbrögð í kringum okkur núna. Þess vegna viljum við gera þessa bæn um styrk á óttatímum að okkar.

Bæn um styrk á óttatímum

Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu
þau sem þekkja sársauka sinn og finna til.
Þau sem þekkja of vel skelfingu umburðarleysis, múgsefjunar, ofbeldis.
Þau sem leyfa ótta sínum ekki að umbreytast í biturð.
Þau sem sætta sig ekki við hatrið sem endanlegt svar.

Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu,
sem uppnefna ekki aðra,
sem ofureinfalda ekki málstaði né smætta manneskjur.
Sem mála ekki myndir með hnussi og of breiðum penslum.
Sem afgreiða ekki margbrotið fólk með einföldum dómum.

Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu,
þau sem ganga á milli í eineltinu.
Þau sem leyfa ekki uppnefni.
Sem líða öðrum ekki að smætta manneskjur.
Sem standa með kærleikanum.

Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu,
þau sem spyrja spurninga, færa rök.
Sem vita að sannleikurinn gerir okkur frjáls.
Sem skilja hvenær á að tala og hvenær á að hlusta.
Sem læra af harðneskju sögunnar og heita: „Aldrei framar.“

Látum okkur vera hin fullorðnu í herberginu,
þau sem vita að Hið heilaga rúmast ekki í einu nafni.
Sem veita viðtöku visku Allah, Móse,
sem fagna lífi Krishna, Jesú,
sem lesa heilaga ritningu náttúru og vísinda.

Látum oss vera hin fullorðnu í herberginu,
þau sem vita að fjölbreytni gerir okkur sterkari.
Sem leita margbrotinnar visku,
sem tala mörg tungumál,
sem vilja viðurkenna að við þörfnumst hvers annars.

Höfundur bænarinnar heitir Meg Riley. Hún er prestur.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.