Dill á Diskóeyju

Fjölskyldan okkar flutti á Diskóeyju í síðustu viku. Síðan þá höfum við dillað okkur í diskótakti við lög eins og Dýrin á Diskó, Dvergadans, Það geta ekki allir verið gordjöss og að sjálfsögðu Diskóeinvígið. Diskóeyjan er ný barnaplatan frá Braga Valdimari Skúlasyni og Memfismafíunni. Þetta er sama gengið og sendi frá sér  Gillligill fyrir tveimur árum. Nú hafa Óttarr Proppé og Guðmundur Kristinn Jónsson slegist í hópinn.

Þetta er vel heppnuð barnaplata. Lögin eru auðlærð og grípandi og þau þola endurtekna hlustun. Þau eru líka gleðivekjandi sem skiptir auðvitað heilmiklu máli. Óttarr er flottur sem Prófessorinn og Páll Óskar gordjöss í hltuverki Ljóta kallsins. Sigríður Thorlacíus syngur Rut listavel og Unnsteinn Manúel er flottur sem Daníel.

Ekki kemur á óvart að listagripur á borð við Diskóeyjuna feli í sér lauflétta samfélagsgagnrýni. Ofurstilltu börnin Daníel og Rut eru vel skilyrt og árangursmiðuð – og hafa markið sett á lögfræði og viðskiptafræði þegar þau verða stór. Það sem verður til að hrista upp í þeim er að góð stjúpa úr nágrenninu ákveður að gefa þeim tækifæri til að auka lífsreynslu sína og víkka sjóndeildarhringinn. Og það með engum smá árangri!

Það er góður boðskapur á Diskóeyjunni: Við skulum virða það að við erum ólík, samtalið blífur, lifum saman í sátt og samlyndi. Gleðjumst í menningu fjölbreytileikans, dvergar, varúlfar, fönkfinkur, prófessorar og börn! Meira að segja Ljóti kallinn áttaði sig á þessu í lokin ;)

Við segjum því takk við Braga Valdimar og Memfismafíuna og Óttarr og Guðmund  Kristinn og mælum með Diskóeyjunni fyrir börn á öllum aldri.

Ps. Ekki spillti það gleði foreldranna að á plötunni fundu þeir nokkrar skemmtilegar trúarlegar vísanir :)

Pps. Myndin með færslunni er fengin af Facebooksíðu Memfismafíunnar. Hún sýnir starfsfólk og nemendur Fágunarskóla Prófessorsins á Diskóeyju.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.