Aukapokinn er aðalpokinn

Nammi

Á nýútkominni jólaplötu syngur Sigurður Guðmundsson aðventukvæði eftir Braga Valdimar Skúlason sem hefst svona: „Á fyrsta sunnudegi aðventunnar ég ek til kaupmannsins í einum rykk. Því þó að fjárhirslunar gerist grunnar ég geri vel við mig í mat og drykk.“

Í aðdraganda aðventu og jóla viljum við geta fyllt innkaupapoka af allskyns gúmmelaði. Í pokana okkar rata jafnvel hlutir sem við neitum okkur alla jafna um, en af því að jólin nálgast gerum við betur við okkur. Erum við til í að leyfa öðrum að njóta með okkur og leggja þeim lið sem hafa ekki tök á því að kaupa inn fyrir jólin vegna þess að þau eiga ekki fyrir mat?

Í verslunarferðum aðventu og jóla gefst nú kostur á að setja í nauðsynjar og matvöru í Aukapoka til að gefa þeim sem þurfa á hjálp að halda. Um leið og við tínum í okkar eigin poka, getum við sett í Aukapokann handa náunga okkar.

Aukapokanum komum við síðan til Hjálparstarfs kirkjunnar. Búðirnar Kostur, Krónan, Nettó, Bónus og Hagkaup á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Reykjanesbæ taka þátt í þessu hjálparstarfsátaki. Þar eru körfur og stampar til að setja aukapokana í. Hjálparstarfið sækir þá svo og kemur til þeirra sem þurfa.

Aukapokinn þinn er aðalpoki þeirra sem hafa lítið milli handanna þessi jól. Aukapokinn er tækifæri fyrir hvert og eitt okkar að deila með öðrum því sem við viljum og getum, eftir okkar eigin efnum og aðstæðum.

Kaup- og gjafmildi tilheyra þessum tíma árs. Með því að leyfa öðrum að njóta hans með okkur, vekjum við von og sýnum kærleika í verki. Þannig getur þessi dimmi tími verið gefandi og styrkjandi fyrir okkur öll. Gerum vel við okkur fyrir jólin og gerum vel við náungann.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.