Á aðfangadegi stjórnlagaþings

Hér er vitnisburðurinn okkar á aðfangadegi stjórnlagaþings. Af þeim gríðarmörgu frambærilegu frambjóðendum eru tveir sem við treystum best til að setjast við það mikilvæga verk sem undirbúningur nýrrar stjórnarskrár er.

Arnfríður Guðmundsdóttir #8023

Arnfríður er prófessor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, menntuð á Íslandi og í Bandaríkjunum. Hún hefur þetta að segja:

Þjóðin hefur nú einstakt tækifæri til að endurskoða grundvöll samfélagsins og móta stefnu til framtíðar.
Ég tel mikilvægt að sú framtíðarstefna sem við setjum okkur leggi grunn að réttlátu samfélagi sem byggt er á jafnrétti og virðingu fyrir einstaklingum, óháð kyni, kynþætti, kynhneigð, fjárhagslegri stöðu, trúarsannfæringu eða búsetu. Til þess að Ísland framtíðarinnar verði slíkt samfélag þurfum við að efla lýðræðislega þátttöku allra Íslendinga og sjá til þess að allir hafi aðgang að nauðsynlegri þjónustu. Það þarf einnig að tryggja að auðlindirnar séu sameign þjóðarinnar og að þeim verði ekki fórnað fyrir stundarhagsmuni.
Framtíðin er barnanna okkar og í þeirra þágu ber okkur að vinna.

Myndband með Arnfríði.

Hjalti Hugason #7132

Hjalti er sérfræðingur í sögu þjóðar og kirkju. Hann er prófessor í kirkjusögu við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hjalti skrifar:

Ég býð mig fram vegna þess að nú gefst einstakt tækifæri til að taka þátt í að marka samfélaginu nýja stefnu. Stjórnarskrá þarf að byggja á grunngildum lýðræðis, jafnréttis, mannréttinda og andlegrar, efnalegrar og félagslegrar velferðar. Stjórnarskrá þarf að taka mið af reynslu þjóðarinnar en horfa jafnframt til framtíðar. Í ljósi reynslu síðustu missera verður m.a. að huga að beinni aðkomu þjóðarinnar að mikilvægum ákvörðunum og styrkja þar með lýðræði. Það þarf að efla þingræði og setja ramma um störf stjórnmálaflokka. Það þarf að ganga betur frá því hvernig stjórnmálamenn og eftirlitsaðilar verða kallaðir til ábyrgðar. Það þarf að treysta eignar- og nýtingarrétt þjóðarinnar á auðlindum.

Myndband með Hjalta.

Við treystum Arnfríði og Hjalta og mælum hiklaust með þeim á kjörseðilinn þinn.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.