Gleðidagur 2: Við lifum góða tíma

Páskabýflugan bleika

Annar gleðidagurinn hófst á svipaðan hátt og aðrir dagar. Yngsta barnið vaknaði fyrir allar aldir og vildi fá hjól leikjalífsins til að snúast á ný. Smám saman rankaði heimilisfólkið við sér og stefnan var tekin á matarbúrið þar sem árbíturinn var borinn á borð.

Þegar ísskápshurðinni var svipt upp til að ná í mjólkina út á morgunkornið rákum við augun í afskaplega fína kampavínsflösku. Við fengum hana að gjöf fyrir næstum því ári síðan og höfum ekki enn fengið það af okkur að njóta innihaldsins. Þetta er nefnilega svo fínt og lekkert vín.

Kampavín í morgunmat

Hvað er viðeigandi tækifæri til að njóta dýrra veiga sem voru gefin af dýrmætu tilefni?  Tom Wright sem var biskup í Durham og kennir núna guðfræði við St. Andrew’s skrifar um slíkt tilefni í hugleiðingum sínum um páskana:

Easter ought not to be the time when all the clergy sigh with relief and go on Holiday. It ought to be an eight-day festival, with champagne served after morning prayer or even before, with lots of Alleluias and extra hymns and spectacular anthems.

Páskarnir og gleðidagarnir eru svo merkilegir og mikilvægir að við ættum að halda hátíð og opna kampavín eftir morgunbænir – nú eða fyrir þær. Þessi hátíðahöld eiga að ná yfir marga daga og þau eiga að einkennast af gleði, fögnuði og því að gera nýja hluti.

Gleðin tekur við af alvörunni

Tom Wright hnykkir á því að gleðitíminn eftir páska sé eðlilegt framhald við föstutímanum í aðdraganda dymbilviku og bænadaga. Fastan er tími aðhalds, sjálfsfórnar, iðrunar og alvöru. Páskarnir eru tími gjafmildis, gleði, tækifæra og tilrauna.

In particular, if Lent is a time to give things up, Easter ought to be a time to take things up. Champagne for breakfast, again; well, of course. Christian holiness wa never meant to be merely negative.

Við tökum boðskap föstu og dymbilviku alvarlega. Við viljum líka vera páskafólk og gefa páskahátíðinni rými í lífinu. Páskarnir eru tákn um lífið og vonina og kristin trú er að lifa í þessari von.

Núna lifum við góða tíma.

Myndin er af páskabýflugunni sem yngsta dóttirin gerði á leikskólanum. Bleik af því að bleikur er uppáhaldsliturinn.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.