Gleðidagur 3: Lífsdansinn

Resurrection

Lífsins Guð.
Lof sé þér fyrir dansandi sól,
brosandi jörð, syngjandi öldu,
hina dásamlegu sköpun, sem þú hefur reist til lífs.

Lausnari heimsins.
Lof sé þér fyrir að þú veltir steinum við grafhvelfingar.
Þú veltir burt hindrunum á leið okkar til lífsgleði,
til fagnaðar, réttlætis og friðar.

Lof sé þér fyrir að þú sigraðir dauðann og ruddir lífinu braut.
Leyfðu okkur að lifa í því vori og sumri veraldar,
sem þín upprisa ól.

Lof sé fyrir mátt þinn til að reisa við öll þau,
sem eru líflítil og lífvana.
Reis þú, Drottinn, þína veröld.

Andi lífs.
Hugga þau, sem vonlítil eru.
Lækna hin sjúku.
Vernda þau sem vandastörfum gegna.
Blessa þau sem dæma, stjórna og marka löggjöf.
Farsæl heimilislíf, atvinnu – allt líf samfélags okkar.

Blessa þau, sem útbreiða frið þinn,
boða orð þitt, þjóna að altari þínu,
hlúa að æsku, mennta fólk til lífsleikni.

Gef vitur ráð í þjónustu við þig.

Allt lífið skapar þú.
Allt lífið leysir þú.
Allt lífið nærir þú.

Amen.

Bænir verða til í samhengi helgihaldsins þar sem fólk kemur saman en líka í hjörtum og huga þegar fólk er eitt með sjálfu sér.

Bænirnar sem eru fluttar í guðsþjónustunni eru oft samkvæmt gamalli hefð. Þær eiga samkvæmt hefðinni að vera byggðar upp á ákveðinn hátt og sækja efnivið og myndmál í Biblíuna. Bænirnar í handbók kirkjunnar er það sem oftast er flutt í messum en þær eru að grunni til ævafornar og mótaðar af hefðbundinni guðfræði.

En stundum koma fram nýjar bænir sem nota önnur orð og aðrar líkingar til að tjá það sem bænin á að miðla. Vinur okkar, Sigurður Árni Þórðarson skrifaði þessa fallegu páskabæn sem okkur finnst tjá vel tilefni gleðidaganna sem nú standa yfir. Við þökkum honum og biðjum ykkur að njóta.

Myndina tók Árni af Kristínu á páskadegi.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.