Gleðidagur 7: Í kvöld lýkur vetri

Síðasti dagur aprílmánaðar er sumstaðar helgaður stúdentum. Ef þú værir staddur í stúdentaborg eins og Uppsala 30. apríl, kæmist þú ekki hjá því að verða var við mikil gleðilæti og fjöldasamkomur með stæl. Andinn sem svífur yfir vötnum á þessum degi, sem í Svíþjóð er kenndur við Valborgu, er í senn hylling til sumarsins sem er í vændum, til æskunnar sem skal erfa landið og til lífsins sem er framundan hjá ungum stúdentunum.

Á Íslandi er ekki hefð fyrir þesskonar stúdentarómantík. Síðasti apríldagurinn er í huga þjóðarinnar dagurinn sem við syngjum Maístjörnuna og leyfum okkur að taka undir:

En í kvöld lýkur vetri
sérhvers vinnandi manns,
og á morgun skín maísól,
það er maísólin hans,
það er maísólin okkar,
okkar einíngarbands,
fyrir þér ber ég fána
þessa framtíðarlands.

Kannski er það einmitt vegna þess að margir upplifa „erfiða tíma og atvinnuþref“ um þessar mundir, sem ljóðið hittir svona vel í mark. Þrátt fyrir kulda, hörkur og þrenging, er von um betri tíma.

Vonin í ljóðinu snýr að fyrirheiti stjörnunnar sem titillinn vísar til. Hún skín þarna svo skært og fagurt og varpar þannig birtu á aðstæðurnar að við fáum styrk til að trúa því að eitthvað betra sé í vændum, fyrir land og þjóð.

Myndbandið sem fylgir færslunni sýnir Gradualekór Langholtskirkju syngja Maístjörnuna eftir Jón Ásgeirsson og Halldór Laxness í kórakeppni í Olomouc, Tékklandi, árið 2009. Graudeualekórinn er einn af hverfiskórunum okkar og við erum stolt af þeim.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.