Gleðidagur 8: Jesús tjillar og grillar

Humargrill

Fyrsti maí er Baráttudagur verkalýðsins og fyrsti sunnudagur eftir páska. Þá er guðspjallið um fiskidráttinn mikla í 21. kafla Jóhannesarguðspjalls lesið í kirkjum landsins.

Þetta er hluti af upprisutextum Nýja testamentisins sem vísa til tímans eftir krossfestinguna þegar Jesús birtist fylgjendum sínum, alltaf við óvæntar aðstæður. Þarna sjáum við að lífið eftir krossfestingu hefur gjörbreyst hjá lærisveinunum, því nú eru þeir teknir til við sitt lifibrauð sem eru veiðar.

Eftir trega nótt með engum afla, gengur óþekktur maður að ströndinni þar sem þeir eru að leggja að landi og hvetur þá til að kasta netunum hinu megin við bátinn. Þeir gera það og netin fyllast á augabragði, af 153 stórfiskum. Þá ljúkast upp augu þeirra og þeir sjá að þetta er Jesús.

Jesús tekur til við að grilla fisk og brauð á glóðum og þeir setjast niður til að eiga máltíð saman.

Þessi saga er náttúrulega dásamleg á 1. maí.

Í fyrsta lagi vegna þess að hún á sér stað í samhengi hinna vinnandi stétta. Baráttan fyrir brauðinu og fiskunum er sígild og ber ekki alltaf þann ávöxt sem nauðsynlegt er.

Í öðru lagi vegna þess að hún lýtur að hlutverki og framkomu leiðtoga í samfélagi og sambandi hans við fólkið. Vendipunktur í sögunni er þegar Jesús bendir á leið sem virkar og leiðir til árangurs. Það er einkenni góðra leiðtoga að þeir ná til fólks og vita hvað þeir ætla að segja.

Í þriðja lagi vegna þess að sagan hefur mjög víða skírskotun. Talan 153 getur staðið fyrir allar þekktar fisktegundir í Tíberíasarvatni á þessum tíma. Að þær rati allar í net lærisveinanna, sem veiða ekki bara fiska heldur fólk, tjáir sýn á útbreiðslu og vöxt sem nær yfir mörk og mæri.

Í fjórða lagi vegna þess að hún tjáir náið og jarðbundið mannlegt samfélag í kringum mat og nærveru.

Samfélag sem vex og blómstrar, góð kommúnikasjón, boðskapur sem mætir fólki óháð þjóðum og landamærum, og nærandi vinátta, er verðugt íhugunarefni á Baráttudegi verkalýðsins.

Til hamingju með daginn.

Myndin með færslunni var tekin í ágúst á síðasta ári þegar fjölskyldan fagnaði afmæli afans með stórkostlegu tjilli og humargrilli.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.