Gleðidagur 23: Stephen Hawking og gleðin yfir lífinu

Mynd: Doug Wheller. http://en.wikipedia.org/wiki/File:Stephen_Hawking_in_Cambridge.jpg

Stephen Hawking, vísindamaðurinn og rithöfundurinn snjalli, segir í viðtali við breska blaðið Guardian í gær að vitundin um eigin dauðleika hafi kennt honum að njóta lífsins betur. 

Hawking greindist sem ungur maður með alvarlegan hrörnunarsjúkdóm og hefur lifað í skugga hans í 49 ár. Þrátt fyrir mikla líkamlega fötlun hefur Hawking verið í fremstu röð vísindamanna í eðlis- og heimsfræði síðustu áratugina. Hann hefur yfirstigið hindranir og blómstrað.

Þess vegna er áhugavert lesa vangaveltur hans um merkingu, líf og dauða. Í viðtalinu kemur m.a. fram sýn hans á líf eftir dauðann. Hann segir að rannsóknir hafi leitt hann til þeirrar niðurstöðu að við dauðann slokkni á manneskjunni, eins bilaðri tölvu. Hugmyndir manna um himnaríki eru hins vegar að mati Hawking ævintýri fyrir fólk sem óttast dauðann. Sjálfur segir Hawking að hann óttist ekki að deyja.

Að sættast við eigin dauðleika getur verið langur og flókinn ferill. Stundum horfumst við harkalega í augu við þessa staðreynd, til dæmis andspænis erfiðri sjúkdómsgreiningu.  Stundum reynum við að lifa eins og við þurfum ekki að deyja og leiðum hugann ekki að því em sem er óumflýjanlegt.

Hvort sem við deilum sýn Stephen Hawking á dauða manneskjunnar eins og tölvubilun eða ekki, er hann verðug fyrirmynd í því að kunna að meta gjöf lífsins og merkingu þess.

Kúnstin er kannski sú að finna jafnvægið milli gleðinnar yfir lífinu og sáttarinnar við dauðann.

Myndin með færslunni er af Stephen Hawking. Hana tók Doug Wheller. Við fundum hana á Wikipediu, en upphaflega var hún sett á flickr.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.