Gleðidagur 22: „Þín kenning klár sé kröftug, hrein og opinskár“

Neskirkjufólkið

Í dag fór fram prests- og djáknavígsla í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þar voru fjórir guðfræðingar vígðir til hins heilaga prests- og prédikunarembættis og tveir djáknar vígðir til kærleiksþjónustu í samfélaginu.

Þjónustuhlutverk kirkjunnar skiptist í þrennt: prestsþjónustu, djáknaþjónustu og biskupsþjónustu. Þessi embætti hvíla á vitnisburði Nýja testamentisins og eru tæki kirkjunnar til að boða trúna í orði og verki í heiminum.

Aðgreining þjónustuhlutverk prests, djákna og biskups, er ekki bara praktísks eðlis heldur miðlar hún guðfræði sem sprettur upp úr sjálfsmynd kirkjunnar, þ.e. að hún er farvegur náungakærleikans í ólíkum myndum.

Presturinn er vígður til að boða gleðiboðskap trúarinnar um ást Guðs og frelsi til handa manneskjunni, í orði og verki.  Djákninn er vígður til að boða kærleika Guðs til manneskjunnar allrar, í orði og verki. Biskupinn er vígður til að hafa tilsjón með störfum og vera prestur prestanna.

Við prestsvígslur á Íslandi er alltaf sungið úr tíunda Passíusálmi þar sem Hallgrímur Pétursson beinir orðum sínum til kennimannsins og minnir á ábyrgð þess vígða. Boðun hinnar réttu trúar er Hallgrími hugleikin og því þarf kenningin sem boðuð er að vera „klár, kröftug, hrein og opinskár“.

Það sem Guðs kennimaðurinn á EKKI að gera, er að smjaðra og hræsna. Það kann ekki góðri lukku að stýra og hefur hörmulegar afleiðingar. Í heild er versið svona:

Jesús vill, að þín kenning klár
kröftug sé, hrein og opinskár,
lík hvellum lúðurs hljómi.
Launsmjaðran öll og hræsnin hál
hindrar Guðs dýrð, en villir sál,
straffast með ströngum dómi.

Prests- og djáknavígsla er gleðiatburður á gleðidögum. Við erum brýnd til þess að fara með þjónustuna eins og gleðiboðskapnum sæmir.

Myndina tók Árni af glöðum hópi úr Neskirkju sem fagnaði vígslu Sigurvins Jónssonar í dag.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.