Útipúkinn 104

Útipúkinn í 104

Ein af mörgum skipulögðum útihátíðum um verslunarmannahelgina átti sér stað ofarlega á Langholtsveginum í Reykjavík. Þar höfðu góðir grannar haft frumkvæðið af því undirbúa hverfispartý og götugrill sem stóð frá miðjum laugardegi og fram á kvöld.

Skreytingarteymið lagði sitt af mörkum og hnýtti rauðar blöðrur á ljósastaura á Langholtsveginum frá Skeiðarvogi að Suðurlandsbraut. Skipulagsnefndin vann líka sína vinnu vel og hafði fengið skilti og vegatálma hjá borginni sem voru notuð til að afmarka hátíðarsvæðið.

Í eftirmiðdaginn voru sölubásar og fataslár settar upp og vegfarendur gerðu góð kaup á sannkallaðri basarstemningu. Ekki fara sögur af neinu heimabökuðu bakkelsi sem þarna skiptu um hendur en nokkur tuskudýr og pet shop kvikindi eignuðust ný heimili.

Undir kvöld breytti gatan enn um svip þegar útileguborðum og -stólum var raðað upp á miðri götunni og grillum af öllum stærðum og gerðum rúllað á staðinn. Hver og ein fjölskylda sá um að koma sér fyrir og að grilla sinn matarbita og koma með sín húsgögn út á götu.

Svo hófst hin undursamlega götuveisla þar sem fólk sem alla jafna skýst inn og út úr húsum sínum án þess að blanda geði við nágranna sat í mestu makindum, ræddi um daginn og veginn og kynntist ungum og öldnum grönnum. Allt á meðan lambaketi, grillpylsum og ýmsu meðlæti var sporðrennt.

Eins og á öllum alvöru útihátíðum ómaði tónlist yfir hverfinu í boði bíleiganda sem lét vélina malla og bílgræjurnar dæla Rolling Stones og Tinu Turner út í umhverfið.

Ekki má láta hjá líða að nefna þátt hverfisbúðarinnar í því að gera Útipúkann 104 eins vel lukkaðan og raun bar vitni – því þar ræður rausnarlegur kaupmaður ríkjum og leysti viðskiptavini á barnsaldri út með gosi og íspinnum. Var það vel metið.

Veðrabrigði settu svip sinn á samveruna en á þeim stutta tíma sem hátíðin stóð yfir fengust sýnishorn af öllu mögulegum veðurgerðum. Sól, skúrir, ský og hellirigning var meðal þess sem götugestirnir fengu að njóta á meðan grillinu stóð.

Ekki þarf að taka fram að hátíðargestir voru sjálfum sér til sóma og enginn gisti fangageymslur. Við skemmtum okkur konunglega og mælum innilega með götuveislum sem þessum. Þær skapa vettvang fyrir jákvæð og ánægjuleg kynni og samskipti fólks sem myndar nærsamfélagið á hverjum stað. Þær búa líka til óvenjuleg og skemmtileg sjónahorn á götuna sem maður býr við og allt skrítna og skemmtilega fólkið sem býr þar líka.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.