Sumarbúðir og hryðjuverk

Sumarhiminn

„Sumarbúðir eru staður þar sem ungt fólk safnast saman til góðrar samveru og leikja, til að þroskast, gleðjast, tala saman, upplifa og verða ástfangið. Þar blómstrar lífið og lýðræðið dafnar. Þegar ungt fólk í sumarbúðum verður að skotmarki, skortir okkur hreinlega getu til að meðtaka það sem gerst hefur.“ Þetta sagði Helga Haugland Byfuglien, biskup í Noregi, í kjölfar skotárásarinnar á sumarbúðir norska Verkamannaflokksins í Útey fyrir utan Osló föstudaginn 22. júlí.

Hryðjuverkin í Noregi minna okkur enn á ný á varnarleysi manneskjunnar andspænis illsku sem brýst út í ofbeldi sem meiðir og deyðir. Atburðirnir í Osló og Útey eru sláandi í eyðileggingu sinni og tilgangsleysi. Þeir vekja engin svör, aðeins spurningar og sorg.

Nú þegar atburðarrásin er að skýrast og tilgátur um hryðjuverkin líta dagsins ljós vakna spurningar um öryggi í samfélagi, starfsemi öfgahópa og hættur sem óbreyttir borgarar búa við. Djúpstæðar spurningar um þjáninguna í lífinu, ranglæti illskunnar og tilgangsleysi gera einnig vart við sig.

Í þannig aðstæðum bregst manneskjan við með því að snúa sér að því sem henni er dýrmætast. Þess vegna þráum við nálægð við þau sem við elskum þegar ógnir steðja að. Þess vegna snúum við okkur til Guðs, með ótta okkar, sorg, reiði og spurningar.

Við felum þetta allt Guði í bæn, vegna þess að við upplifum okkur smá og vanmáttug í því að rétta hjálparhönd og sýna stuðning þeim sem líða og þjást. Með bænum, hlýjum hugsunum og kveðjum sýnum við strax í dag samstöðu með systrum og bræðrum sem eru þolendur þessa ofbeldisverks.

Forsætisráðherra Noregs, Jens Stoltenberg, orðaði í kvöld leiðina burt frá þeim vonda stað sem ofbeldisverkin setja norsku þjóðina á:

„Svarið við ofbeldi er ennþá sterkara lýðræði og mannúð – en ekki að loka augunum fyrir því sem getur gerst og hefur gerst. Það er það sem við skuldum þeim föllnu“.

Slíkt svar er skref í þá átt að gera samfélagið áfram að stað þar sem lífið fær að blómstra og ungt fólk safnast öruggt saman til góðrar samveru. Áskorun á tíma hryðjuverkanna er að standa saman til að svo megi verða.

Það er bæn okkar og von.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.