Að vænta vonar í málstofu Guðfræðistofnunar

Við verðum með erindi í málstofu Guðfræðistofnunar á mánudaginn. Auglýsingin er svona:

Hvaða þýðingu hefur vonin í menningunni? Er vonin vænleg lífsafstaða í lífsbaráttunni? Hvaða merkingu hefur aðventan í huga þjóðarinnar?

Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir unnu verkefnið „Að vænta vonar – jóladagatal kirkjunnar 2010“ fyrir síðustu aðventu, sem birtist á vef þjóðkirkjunnar, www.kirkjan.is. Þar tjáðu 24 einstaklingar, leikir og lærðir, sýn sína á vonina í stuttum myndbandsupptökum sem birtar voru á vefnum á hverjum degi frá 1.-24. desember.

Höfundar leituðu til nokkuð breiðs hóps einstaklinga sem tóku að sér hlutverk vonarbera sem lyftu upp hlutum sem þau tengja merkingu og mikilvægi vonarinnar, út frá boðskap kristinnar trúar og í samhengi menningarinnar. Útkoman er breitt litróf skoðana og stuttra hugleiðinga sem birta mynd af voninni í lífi fólks í samtímanum.

Í erindinu leitast höfundar við að setja vitnisburð jóladagatalsins í samhengi guðfræði vonarinnar á 20. öld og staðsetja boðskap þess í eftir-afhelguðum (post-secular) samtímanum.

Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir eru prestar. Þau hafa lært guðfræði á Íslandi, í Svíþjóð og í Bandaríkjunum. Þau hafa verið virk í umræðu um kirkju, guðfræði og þjóðmál á Íslandi og halda úti bloggi á www.arniogkristin.is.

Þið eruð velkomin :)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.