Á netinu er ekkert einkalíf

4 5 6Stefán Hrafn Hagalín talaði á Alþjóða netöryggisdeginum í gær. Hann var líka í viðtali við Sjónvarp Mbl og sagði þar meðal annars:

… þú stýrir þínum prófíl á netinu. Það portrett sem er til af þér. Sú spegilmynd sem er til af þér á netinu, þú ákveður hvað er sett þarna, bæði orðin og myndirnar og annað slíkt og ég held að þeim mun fyrr sem fólk er komið í skilning um þetta, að þeim mun betri og öruggari staður verður netið til að vera á.

Þetta er alveg rétt hjá honum og það verður ekki brýnt of mikið fyrir fólki á öllum aldri að þekkja miðlana sem eru notaðir hverju sinni og vera sér meðvituð um hverjir geta séð. Þekkja til dæmis muninn á sýnileika- og friðhelgisstillingum á Facebook.

Morgunblaðið tekur þetta upp í leiðara um einkalíf á netinu:

Umræða um persónuvernd og friðhelgi einkalífsins er síst of mikil í samfélaginu og finnst mörgum skorta á virðingu fyrir henni. Í þeirri umræðu gleymist að oft eru það einstaklingarnir sjálfir, sem minnsta virðingu bera fyrir friðhelgi síns einkalífs og gæta ekki að því hvaða upplýsingar þeir bera á torg. Netið er vitaskuld mikið þing en það verður að umgangast af varúð eins og alla aðra hluti. Á netinu er ekkert einkalíf.

Þetta er góð brýning og hægt að taka undir allt í henni nema seinustu setninguna.

Hún er röng.

Hún er röng í samhengi málsgreinarinnar. Ef það væri ekkert einkalíf á netinu þá þyrftum við ekki að bera virðingu fyrir friðhelgi eigin einkalífs á netinu.

Hún er röng í samhengi netsins almennt. Þar eru til að mynda opnir vefir (eins og mbl.is), lokaðar netþjónustur (eins og iMessage í snjallsímanum) og hálf- eða kannski misopnir vefir (eins og  facebook og flickr). Það efni sem fer á opinn vef er vissulega öllum aðgengilegt. Þar er lítið einkalíf. Efni á lokuðum vefjum og netþjónustum er ekki aðgengilegt og á ekki að vera neinum aðgengilegt. Þar getur vissulega verið efni sem heyrir til einkalífi fólks. Eða lítum við svo á að smáskilaboðin sem við sendum varði ekki einkalífið? Eða myndasafnið sem ég set á lokað vefsvæði, læst með aðgangsorði sem ég deili bara með fjölskyldunni.

Mörkin þarna á milli eru skýr og við eigum ekki að hringla í þeim eða ala á óöryggi fólks gagnvart þeim með því að senda misvísandi skilaboð.

Það eru hinsvegar misopnu vefirnir, eins og facebook og flickr og google+ sem við þurfum að vera okkur sérstaklega meðvituð um. Þar setjum við mörkin nefnilega sjálf og þá þarf heilbrigða dómgreind.

Morgunblaðið og Stefán Hrafn fá hrós dagsins fyrir að minna okkur á mikilvægi þess að vera meðvituð um einkalífsmörkin á netinu og ábyrgð hvers og eins á eigin gjörðum. En leiðarahöfundur Moggans fær líka skamm fyrir lokasetningu leiðarans sem gerir mörkin ekki skýr heldur óljós.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.