Grannar og guðsþjónusta

Síðastliðinn sunnudag, sem var fyrsti sunnudagur í föstu, var haldin grannaguðsþjónusta í Seltjarnarneskirkju. Íbúar úr Eiðismýri, Suðurmýri, Tjarnarmýri, Grænumýri, Kolbeinsmýri, Tjarnarstíg og Tjarnarbóli tóku virkan þátt í guðsþjónustunni, m.a. með því að lesa ritningarlestra, semja og lesa bænir. Þá var kirkjukaffið í umsjón íbúa þessara tilteknu gatna.

TúlípanarGrannaguðsþjónustan er sniðug hugmynd sem sýnir vel grunnhugsun þjóðkirkjunnar, nefnilega að hún er byggð upp á landfræðilegum einingum eins og götuheitin vísa til. Þessar landfræðilegu einingar heita sóknir en öllu landinu er skipt upp í sóknir.

Þetta er gífurlega mikilvægt atriði í skipulagi og uppbyggingu þjóðkirkjunnar en allt hennar starf hvílir á sóknahugsuninni. Öll þjónusta og stjórnsýsla miðast við sóknirnar sjálfar.

Um þetta segir í Innri samþykktum þjóðkirkjunnar, sem samþykktar voru á kirkjuþingi fyrir nokkrum árum:

Sóknin er grunneining þjóðkirkjunnar og vettvangur þjónustu hennar á hverjum stað. Sóknin er félag þess fólks innan þjóðkirkjunnar sem myndar söfnuð, þar sem fagnaðarerindið er boðað og sakramentin um hönd höfð og fólk leitast við að lifa samkvæmt boði Krists.

Við þetta má bæta að sóknirnar eru grundvöllur þess samkomulags sem ríki og kirkja gerðu með sér á sínum tíma, um að ríkissjóður tæki yfir eignir og arð sóknanna en stæði jafnframt skil á launagreiðslum kirkjunnar þjóna.

Seltjarneskirkja fær hrós fyrir að lyfta upp þjóðkirkjuhugsjóninni með grannaguðsþjónustunni og minna þannig á landfræðilegar rætur þjóðkirkjunnar.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.