Gleðidagur 1: Veislan

Páskadagur er fyrsti gleðidagurinn. Páskadagur er líka fyrsti veisludagurinn. Um allt land er boðið til kirkjuveislu. Við sólarupprás safnaðist fólk á Þingvöllum og þegar sólin gægðist yfir Kálfstindana í austri var sungið: „Kristur er upprisinn“. Svo var gengið til messu og að henni lokinni var boðið til morgunkaffis.

Morgunkaffið á Þingvöllum er samvinnuverkefni allra kirkjugesta. Það minnir okkur á að kirkjan er samvinnuverkefni okkar þar sem allir meðlimirnir skipta máli og hafa mikið fram að færa.

Morgunveislan í kirkjunni var fyrsta veisla dagsins. Svo hélt veislusamfélagið áfram. Páskaeggin voru opnuð og fjölskyldurnar mættust. Páskalambið var sett í ofninn og fékk að malla fram eftir degi.

Við erum þakklát fyrir páskaveislurnar, í kirkjum og á heimilum, sem minna okkur á lífsveisluna þar sem margir koma saman til að gleðjast. Við erum líka þakklát fyrir kirkjukaffið á Þingvöllum sem minnir okkur á að samfélagið okkar er samstarfsverkefni þar sem við þiggjum ekki bara heldur gefum líka.

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.

Nú er veisla.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.