Gleðidagur 2: Til hamingju fermingarbörn

Annar páskadagur er einn af fermingardögunum í kirkjunni. Um allt land gengur glæsilegt ungt fólk í átt að altari og svarar játandi spurningunni: Vilt þú hafa Jesú Krist að leiðtoga lífsins? Í vetur hafa þau tekið virkan þátt í starfinu í kirkjunni sinni, rætt við hvert annað, prestana sína, djákna og æskulýðsleiðtoga um trúna og lífið – um vonir og þrár og framtíðarsýn.

Fermingarbörn úr Hafnarfirði heimsækja SkálholtVið vorum svo heppin að fá að fylgja nokkrum fermingarhópum á síðsumarnámskeiðum í Skálholti í fyrra. Það voru glæsilegir fulltrúar ungu kynslóðarinnar, forvitin og fróðleiksfús sem hófu fermingarferðalagið sitt í Skálholti og eru að fermast þessar vikurnar. Unga fólkið í kirkjunni gerir okkur bjartsýn á framtíðina.

Fermingin er hátíð og gleðiefni í fjölskyldum. Litlu krakkarnir sem voru bornir að skírnarlauginni fyrir rúmum áratug eru orðin stór. Þau standa á krossgötum í lífinu og eru uppfull af spurningum og væntingum um það sem koma skal.

Fermingin er líka hátíð og gleðiefni í samfélaginu. Í mars og apríl eru kirkjurnar fullar af fermingarbörnum í hvítum kyrtlum. Verslanir eru líka fullar af ættingjum og vinum sem samfagna og gefa gjafir sem bera oftar en ekki í sér fyrirheit um framtíðina. Fermingarblöðin sem fylgja stóru dagblöðunum bera þessu vitni og þau minna okkur á að fermingardagurinn er bæði sérstakur og minnisstæður.

Á öðrum gleðidegi viljum við óska öllum fermingarbörnum ársins til hamingju og samfagna með þeim.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.