Gleðidagur 15: Krúttin

Jólasöngvar fjölskyldunnar

Fjölskyldan skundaði til messu í Langholtskirkju í morgun. Þar var nokkuð þétt setið. Ungir og aldnir úr hverfinu komu saman til að fagna gleðidögum og fjölskyldunni. Séra Irma Sjöfn héraðsprestur og vinkona okkar þjónaði og krakkar úr kórskóla Langholtskirkju og krúttakórnum leiddu í söng og sungu fyrir okkur.

Æskulýðsstarfið í kirkjunum er fjölbreytt. Langholtskirkja sker sig úr því þar er það á formi kórastarfs. Við kirkjuna starfa nokkrir af frambærilegustu kórum landsins. Það er gott að vita til þess að ein kirkja í höfuðborginni leggi svona ríka áherslu á menninguna í kirkjustarfinu.

Kannski eiga krúttin sem sungu fyrir okkur í dag eftir að heilla íslenska tónlistarunnendur í Eurovision, á óperusviði í Hörpu eða í söngvakeppni framhaldsskólanna í framtíðinni. Í öllu falli vorum við þakklát fyrir sönginn þeirra í dag og glöddumst með þeim á fimmtánda gleðidegi.

Myndin með færslunni sýnir nokkur krútt á jólasöngvum fjölskyldunnar í hitteðfyrra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.