Einelti er súrt en virðing er sæt

Mynd: Daníel Müller Þór

Mynd: Daníel Müller Þór

Í fréttum Rúv í gærkvöldi var sagt frá stórum hópi ungmenna sem koma saman undir merkjum kristinnar trúar til að berjast gegn einelti í samfélaginu. Krakkarnir eru um 60 talsins, á aldrinum 15-18 ára frá æskulýðsstarfi lúthersku kirkjunnnar í Þýskalandi og frá þjóðkirkjunni. Þau hafa notað heila viku til að fræðast, ræða saman og vinna gegn einelti. Vinnan fer fram í minni og stærri hópum og áherslan er lögð á að skilgreina og þekkja einelti í umhverfi unglinganna sjálfra. Hópurinn hefur líka fengið heimsóknir frá samtökum sem vinna gegn einelti og fræðst um það sem hefur verið gert í baráttunni við það.

Verkefnið vekur og hvetur

Það er hvetjandi og vekjandi að heyra um metnaðarfull kirkjuverkefni eins og þetta. Hvetjandi vegna þess að hér er á ferðinni lifandi kirkja sem tengist samfélaginu á jákvæðan og skapandi hátt. Vekjandi vegna þess að áminning unglinganna um eineltisbölið beinir athygli okkar að því hvernig þessum málum er fyrirkomið í umhverfi okkar sjálfra.

Mótmælaganga frá Hlemmi

Þýsku og íslensku unglingarnir hafa einnig notað vikuna til að búa til stuttmyndir, plaköt og póstkort sem tengjast umfjöllunarefninu. Hápunktur verkefnisins er síðan mótmælaganga gegn einelti sem verður farin frá Hlemmi kl. 17 í dag, föstudaginn 20. júlí. Allir sem eiga heimangengt eru hvattir til að ganga með í dag.

Verkefnið „Unglingar gegn einelti – Mannréttindaátak gegn mismunun og túlkun“ er fjármagnað með styrk frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Það sýnir kirkjuna sem jarðveg og farveg fyrir góða hluti í samfélaginu. Unglingarnir okkar og æskulýðsleiðtogarnir eru þess vegna sönn fyrirmynd okkar allra.

Myndina með pistlinum tók Daníel Müller Þór sem er einn af skipuleggjendum verkefnisins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.