Bæn um verslunarmannahelgi

Við hugsum til allra þeirra sem nú undirbúa ferð út á land, á hátíðir, í sumarbústaði, í göngur, til að hitta vini og ættingja, til að skemmta sér, sýna sig og sjá aðra.

Guð, við felum þér öll þau sem leggja land undir fót þessa helgi og biðjum þig að gæta þess að ekkert illt hendi þau og að þau komist heil heim að helgi lokinni.

Vak yfir vegunum þar sem við keyrum. Gerðu þau sem stjórna ökutækjum árvöku, varkár og meðvituð um ábyrgð sína.

Vertu með í gleðskap helgarinnar og gefðu sanna gleði. Haltu utan um þau sem villast og leið þau á öruggan stað.

Gerðu okkur algáð og ábyrg í samskiptum við aðra. Lát okkur minnast þess að hvert og eitt erum við sköpuð í þinni mynd og að okkur ber að sýna meðsystkinum okkar virðingu í öllum aðstæðum.

Geymdu í hendinni þinni alla unglingana sem skemmta sér saman um þessa helgi. Gerðu stráka og stelpur meðvituð um að þau bera ábyrgð hvert á öðru og eiga að gæta hvers annars. Gerðu tímann þeirra saman bjartan og bæg frá þeim ógæfu misnotkunar og valdbeitingar.

Við þökkum fyrir fallega landið okkar, dýrmætu náttúruna, fjöllin, grjótið, grösin og vötnin. Gerðu okkur minnug þess að náttúran er þín og þess vegna eigum við að umgangast hana með allri virðingu, aðgát og auðmýkt.

Vertu með öllum sem sinna störfum sínum þessa helgi. Takk fyrir löggæslu, heilbrigðisstarfsfólk, þjónustuaðila og listafólk sem leggur sitt af mörkum til að við getum átt öruggan, þægilegan og skemmtilegan tíma.

Vertu líka með öllum þeim sem eru heima og komast ekki í ferðalög um þessa helgi.

Guð, við þökkum þér fyrir ljúfleika sumarsins og gleðjumst yfir fyrirheitum helgarinnar. Leyfðu góðum gjöfum þínum að auðga okkur og næra, hvert sem við förum og hvar sem við erum.

Við biðjum í Jesú nafni. Amen.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.