Elska ég líka þig – fimmti Passíusálmur

Nóttin í grasgarðinum er viðburðarrík og full af óvæntum atvikum. Atburðirnir verða fyrir Hallgrími tákn um allt það óvænta og erfiða sem mætir okkur á lífsleiðinni, og mikilvægi þess að vera viðbúin því sem að höndum ber. Þegar við leggjumst til hvíldar að kvöldi dags, vitum við ekki hvað nóttin felur í sér fyrir okkur.

Vörnin er fólgin í því að vera nálægt Jesú og þiggja skjól og vernd sem hann veitir. Vörn Jesú gildir í ólíkum aðstæðum – gegn reiði Guðs, gegn samvisku sem plagar og ásakar, gegn sótt og sorglegri fátækt, og gegn sjálfum dauðanum sem vill kveða upp dóm sinn. Alls staðar gildir að Jesús tekur slaginn fyrir þá sem trúa á hann.

Á móti vill Hallgrímur játa ást sína og þakklæti til Jesú. Jesús er sá sem elskar mig – og ég er sá sem elskar Jesú. Lokaversið í fimmta Passíusálminum undirstrikar viljann til að eiga náið samfélag og samtal við Jesú, sem hefst hér á jörðinni og nær inn í eilífðina.

Ég segi á móti: Ég er hann,
Jesú, sem þér af hjarta ann.
Orð þitt lát vera eins við mig:
Elska ég, seg þú, líka þig.
Eilíft það samtal okkar sé
uppbyrjað hér á jörðunni.
Amen, ég bið, svo skyldi ske.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.