Gleðidagur 5: Gleðin og dauðinn

Untitled

Getur dauðinn einhvern tímann verið uppspretta gleði og hláturs? Þannig spyr ung kona, þrjátíu og eins árs gömul, sem hefur núna sína lokabaráttu fyrir lífinu. Hún glímir við sjaldgæft krabbamein sem uppgötvaðist fyrir einu og hálfu ári síðan.

Dr. Kate Granger er læknir sem sérhæfði sig í öldrunarlækningum. Hún horfist núna í augu við að hún er að deyja. Engar meðferðir duga til að lækna krabbameinið sem herjar á frumur hennar í beinum og víðar. Hún hefur ákveðið að deila hugsunum sínum og upplifunum með því að tísta og blogga og hleypa þannig öðrum að þessari reynslu.

Mér líður alltaf betur þegar ég hlæ innilega.

„Þegar við hugsum um hvaða tilfinningar tengjast dauðanum og því að vera að deyja, koma tilfinningar eins og ótti, óróleiki, sorg og depurð í hugann. En mig langar að velta því upp hvort ekki séu aðrar tilfinningar í spilinu líka“ segir Kate í viðtali við breskt dagblað.

„Sjálfri líður mér alltaf betur þegar ég hlæ innilega og ég er alveg viss um að mitt jákvæða viðhorf hefur hjálpað til við að láta mér líða vel eftir að krabbameinsmeðferðinni lauk fyrir nokkru síðan. Ég vona innilega að gleðin fylgi mér til dauðastundarinnar og verði með í för allt til enda.“

Á fimmta gleðidegi viljum við þakka fyrir gleðina í lífinu sem er svo sterk að hún hjálpar okkur að horfast í augu við dauðann.

Myndin með bloggfærslunni er af blómum sem hugguðu á sorgarstundu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.