Trú, stríð og friður

Kirkjuritið kom út í dag. Þetta er þriðja tölublaðið sem við hjónin ritstýrum. Að þessu sinni er meginþema ritsins umfjöllun um stríð, frið og sáttargjörð af sjónarhóli trúarinnar.

Forsíðu Kirkjuritsins prýðir að þessu sinni mynd sem Svavar Alfreð Jónsson tók af Sólveigu Höllu Kristjánsdóttur og nokkrum fermingarbörnum á Vestmannsvatni.
Forsíðu Kirkjuritsins prýðir að þessu sinni mynd sem Svavar Alfreð Jónsson tók af Sólveigu Höllu Kristjánsdóttur og nokkrum fermingarbörnum á Vestmannsvatni.

Í þeim hluta ritsins eru fjögur viðtöl og ein stutt grein. Sólveig Anna Bóasdóttir og Sigurður Árni Þórðarson gefa okkur innsýn í afstöðu kristinna guðfræðinga og siðfræðinga til stríðs og friðar, Sigríður Víðis Jónsdóttir segir okkur frá starfi UNICEF á átakasvæðum eins og í Sýrlandi og Justin Welby, erkibiskup af Kantaraborg ræðir um það sem kirkjurnar hafa fram að færa þegar kemur að því að stuðla að sáttagjörð í samfélaginu. Grétar Halldór Gunnarsson, guðfræðingur, kemur líka inn á þema ritsins í Síðasta orðinu.

Við fengum líka fjölda aðsendra greina, meðal þeirra eru umfjöllun Stefáns Pálssonar, sagnfræðings, um Lúther og bjór sem er skemmtilegt innlegg í umræðuna í aðdraganda siðbótarafmælisins 2017. Þá fjallar Sigfús Kristjánsson um nýútkomnar stuttmyndir trúaðanna Barböru og Úlfars út frá Biblíusögum og boðorðum.

Á vef ritsins er hægt að lesa leiðarann sem fjallar um litríka kirkju og kynna sér efnisyfirlitið. Svo er hægt að gerast áskrifandi eða kaupa sér stakt eintak hjá konunum í Kirkjuhúsinu.

Það er sérlega ánægjulegt verkefni að ritstýra Kirkjuritinu. Við erum þakklát okkar góða samstarfsfólki í ritnefndinni, Eddu sem heldur utan um fjármál og dreifingu, höfundum öllum og viðmælendum sem leggja okkur til gott efni og svo honum Brynjólfi sem hannar og setur upp ritið.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.