Eineltið fer ekki í helgarfrí

Í dag er alþjóða baráttudagur gegn einelti. Í tilefni hans verður kirkjuklukkum um allt land hringt klukkan eitt. Agnes biskup hefur hvatt til þess að þeim verði hringt í sjö mínútur, eina mínútu fyrir hvern dag vikunnar. Enda fer eineltið ekki í helgarfrí.

Á vefnum hafa í vikunni birst nokkrar góðar greinar um baráttuna gegn einelti.

Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF, minnir á að fræðsla um réttindi barna getur dregið úr einelti:

Með því að fræða börn og fullorðna um mannréttindi, ekki síst réttindi barna, sköpum við umhverfi þar sem börn verða fulltrúar eigin réttinda, sem og réttinda annarra. Þannig styrkjum við og eflum börn og ungmenni og búum þau undir að verða virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi.

Vanda Sigurðardóttir, lektor, talaði um góðmennsku gegn einelti á dögunum og lýsti löngun sinni til að fá sem flesta með í liðið gegn einelti:

Við öll höfum því vald bæði til að ýta undir einelti – með því að gera ekki neitt – en líka að stoppa það. Þeir sem lagðir hafa verið í einelti segja margir að það sem særi þá mest er að enginn hjálpi þeim.

Margrét Júlía Rafnsdóttir, verkefnastjóri hjá Barnaheillum, talar um mikilvægi þess að rækta umburðarlyndi og umhyggju meðal leikskólabarna:

Í leikskóla sem hefur umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki að leiðarljósi og ræktar þessi gildi meðal nemendanna, eru minni líkur á að barn verði fyrir aðkasti vegna einhverrar sérstöðu sinnar. Þar er fjölbreytileikinn virtur og þar eru allir jafningjar, þrátt fyrir mismunandi aðstæður, eiginleika og bakgrunn.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir frá göngu gegn einelti í öllum hverfum bæjarins:

Einelti getur birst hvar sem er í samfélaginu, á vinnustöðum, í félagsmiðstöðvum eða á sumarnámskeiðum svo dæmi séu nefnd. Síðast en ekki síst þurfum við þó sem foreldrar, forráðamenn, kennarar, bæjarstjórar eða aðrar fyrirmyndir að líta í eigin barm og huga að því hvers konar skilaboð við sendum til yngstu kynslóðarinnar.

Sigurvin Jónsson, prestur í Laugarneskirkju, ræddi um Jesús og einelti:

Í sögunni af Jesú Kristi öðlumst við fyrirmynd um mann sem hafði hugrekki til að rísa upp gegn kerfisbundnu ofbeldi síns tíma og gaf fyrirheiti um að við stöndum ekki ein í lífinu.

Ps. Á Trú.is er fjöldi pistla og prédikana um einelti. Kannski hefur einhver gagn af því.

In

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.