Það eru ekki alltaf jólin

Á jólatónleikum í sjónvarpssal sem fylgdu plötunni Nú stendur mikið til með Sigurði Guðmundssyni og Memfismafíunni ávarpar Sigurður áhorfendur og segir eitthvað á þessa leið.

Það eru ekki alltaf jólin,
En þegar þau eru þá er gaman.

Það er gaman á jólunum. Við upplifum gleðina í undirbúningi þeirra og við upplifun hana þegar jólin hafa gengið í garð. Hún skín í gegn þótt stundum sé streitustigið hátt – að vísu gleymist það furðufljótt og á tólfta degi jóla er maður næstum búinn að gleyma öllu sem var erfitt í aðdraganda jólanna.

Það er samt alvarlegur undirtónn á jólunum. Við heyrum hann í guðspjöllunum þegar við lesum í kringum jólasöguna sjálfa. Matteus guðspjallamaður talar um Heródes konung sem óttaðist barnið. Jóhannes um heiminn sem þekkti soninn ekki og fólkið tók ekki á móti honum. Við heyrum líka alvarlegan undirtón í áramóta- og nýársræðum ráðamanna hér á landi: við stöndum frammi fyrir brýnum úrlausnarefnum og það dugar ekki að kasta til höndunum.

Það er gaman á jólum,

en ekki fyrir alla.

Það var ekkert gaman í Betlehem og nágrenni þegar Heródes hafði fengið sínum vilja framgengt þar. Guðspjallamaðurinn orðar þetta með knöppum hætti og kannski ósköp pent:

„Þá varð Heródes afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri.“

Svo bætir hann við stuttu ljóði sem er vísun í spádómsbók Jeremía þar sem tilfinningarnar eru túlkaðar:

„Rödd heyrist í Rama, harmakvein, beiskur grátur. Rakel grætur börnin sín, hún vill ekki huggast láta, því að þau eru ekki framar lífs.“

Og María og Jósef, nýbúin að upplifa himneskar hirðsveitir og kraftaverkafæðingu, og mótttökur hirða og vitringa, skunduðu til Egyptalands þar sem þau voru óult. Þau voru flóttamenn. Hælisleitendur.

Heródes var reiður og hann tók reiðina sína út á börnunum. Með beinum hætti. Börn eru iðulega fyrstu fórnarlömbin þegar átök brjótast út. Ég fékk innsýn í það fyrr í vetur þegar ég ræddi við Sigríði Víðis Jónsdóttur sem starfar hjá UNICEF. Hún sagði meðal annars:

„Börn eru sérlega viðkvæmur hópur. Þau þurfa vernd … Börn eru alltaf fyrst til að veikjast og láta lífið. Þau eru sérlega útsett fyrir alls kyns ógnum og það verður að passa þau. … Við viljum að öll börn fái að lifa í friði, njóta verndar, fara í skóla og að ekkert barn láti lífið af orsökum sem hægt er að koma í veg fyrir. Útgangspunkturinn í okkar starfi er að öll börn eigi rétt á þessu, sama hvar þau búa. Ekkert barn er undanskilið.“

Börn eru fyrstu fórnarlömbin þegar stríð brýst út. Börn eru líka iðulega fyrstu fórnarlömbin þegar eitthvað bjátar á í samfélaginu okkar eða á heimilunum okkar. Þau reyna á eigin skinni átök og erfiðleika.

Þetta var brýnt fyrir okkur nokkrum sinnum um jólin, í dagblöðunum, þegar talað var um upplifun barna sem búa við alkóhólisma af jólunum. Fyrir sumum þeirra eru til dæmis bæði tími gleðinnar og pakkanna og tími tími drykkjunnar og ógleðinnar og hún yfirskyggir og þau eru bara alls ekki góður tími.

Hvers vegna er ég að tala um þessar neikvæðu hliðar jólanna sem senn eru liðin?

Það eru tvær ástæður fyrir því.

Önnur er sú að guðspjall þessa sunnudags minnir okkur á hvað sagan af Jesú frá Nasaret er raunsæ. Hún er með báða fætur á jörðinni – svona að því marki sem hægt er að tala um að sögur hafi fætur. Þetta er sannarlega himnasaga sem fjallar um Guð sem er almáttugur og alvitur en hún gerist á jörðu og fjallar um sáravenjulegt fólk í sérstökum aðstæðum. Og hér eru augun galopin, gagnvart gleðinni og því þegar það er gaman og gagnvart sársaukanum og þjáningunni sem getur stundum fylgt lífi okkar mannfólksins.

Hin er sú að þessi frásögn í guðspjalli sunnudagsins brýnir okkar um að vera vakandi fyrir neyð náungans og mæta henni. Það gerum við sem samfélag, í gegnum fínu kerfin sem hafa verið búin til eins og heilbrigðiskerfið og skólakerfið og velferðarkerfið. Í gegnum stofnanirnar okkar eins og þessa kirkjuna. Það gerum við líka sem einstaklingar.

Það getum við gert út frá tveimur grundvallarreglum sem eru um leið lífsreglur að fylgja:

Þar sem við mætum neyð reynum við að lina þjáningar.
Þar sem við mætum gleði tökum við undir fögnuðinn.
Við gerum þetta í anda Jesú Krists og reynum þannig að feta í fótsporin hans og það er að vera náungi í kærleika.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.

Guðspjallið

Þá sá Heródes að vitringarnir höfðu gabbað hann og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri en það svaraði þeim tíma er hann hafði komist að hjá vitringunum.
Nú rættist það sem Jeremía spámaður hafði sagt fyrir um:

Rödd heyrist í Rama,
harmakvein, beiskur grátur.
Rakel grætur börnin sín,
hún vill ekki huggast láta,
því að þau eru ekki framar lífs.

Þegar Heródes var dáinn þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi í Egyptalandi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og far til Ísraelslands. Nú eru þeir dánir sem sátu um líf barnsins.“ Jósef tók sig upp og fór til Ísraelslands með barnið og móður þess.
En þá er hann heyrði að Arkelás réð ríkjum í Júdeu í stað Heródesar, föður síns, óttaðist hann að fara þangað og hélt til Galíleubyggða eftir bendingu í draumi. Þar settist hann að í borg sem heitir Nasaret en það átti að rætast sem spámennirnir sögðu fyrir um: „Nasarei skal hann kallast.“ Matt 2.16-23

Flutt í Bústaðakirkju 5. janúar 2014. Einnig birt á Trú.is.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.