Pútín á fjallinu

Pútin á hesti.

Við hjónin fórum í stutta heimsókn til Stokkhólms um síðustu helgi. Þar var auðvelt að verða var við mikla stemningu í aðdraganda vetrarólympíuleikanna í Sochi, sem nú eru hafnir.

Svíar taka íþróttirnar sínar mjög alvarlega og vetrarólympíuleikarnir eru þar engin undantekning. Á annað hundrað keppenda taka þátt og Svíar eru in-it-to-win-it. Vangaveltur og spádómar um hversu mörg verðlaun falla þeim í skaut eru alvöru umfjöllunarefni fjölmiðla og manna á milli. H&M, sem ekki þarf að kynna fyrir Íslendingum, er af tilefni ólympíuleikanna með sérstaka fatalínu til sölu í verslunum sínum, sem kallast á við búninga sænsku keppendanna og minnir á hverja ber að hvetja til sigurs. Og ef allt fer eins og lítur út fyrir, má búast við mörgum gulum og bláum á verðlaunapöllunum í Sochi.

Sögur frá Kákasus

Um síðustu helgi opnaði líka ljósmyndasýning í Ljósmyndasafninu í Stokkhólmi sem ber yfirskriftina Sögur frá Norður-Kákasus. Sochi, þar sem ólympíuleikarnir fara fram eru í nágrenni Kákasussvæðisins, þar sem ein blóðugustu átök í Evrópu hafa orðið á síðustu árum.

Eftir fall Sovétríkjanna í lok árs 1991, hafa tvö stríð verið háð í Tjetjeníu og átökin og ofbeldið breiðst út til nærliggjandi svæða. Þótt opinberlega hafi verið lýst yfir vopnahléi árið 2009 féllu samt um 700 manns á síðasta ári í átökum á þessu svæði í Rússlandi, þar sem ólíkar þjóðir með ólíka menningu og trú byggja.

Löndin sem blandast í þessi átök eru auk Rússlands landsvæðin í Tjetjeníu, Dagestan og Ingútjetíu. Opinber stríðsátök þar sem Rússneski herinn beitti sér með þunga voru upphaflega háð til að kveða niður uppreisnarmenn sem börðust fyrir sjálfstæði landanna frá Rússlandi. Þau átök hafa síðan þróast í baráttu gegn róttækum Islamistum sem hafa beitt hryðjuverkum í nærumhverfi sínu og út um allt Rússland.

Eins og forn viska bendir á, fæðir ofbeldi af sér ofbeldi og ranglæti fæðir af sér ranglæti. Í skjóli baráttunnar við hryðjuverk og öfgamenn hafa síðan þrifist alls konar mannréttindabrot, og morð, mannrán, pyntingar og ofsóknir á minnihlutahópum viðgengist í skjóli stjórnvalda.

Ljósmyndasýningin í Stokkhólmi sem er eftir verðlaunaljósmyndarann Pieter ten Hoopen varpar ljósi á fórnarlömb þessara stjórnvaldsvernduðu mannréttindabrota, með því að hlusta á sögur ástvina og aðstandenda þeirra. Fórnarlömbin koma úr ólíkum stéttum, þau eru t.d. læknar og verksmiðjustarfsmenn, unglingar og ellilífeyrisþegar, trúað fólk og trúlaust, konur og karlar.

Ein ljósmyndin tjáir á áhrifaríkan hátt hvernig ofbeldið mótar lífið allt þótt á yfirborðinu líti allt út fyrir að vera slétt og fellt. Þar sjáum við hið fallega Kaspíahaf og fiskimenn sem sitja í rólegheitum með veiðistangirnar sínar og bíða eftir að bíti á. Ungt par með nýfætt barn sitt röltir meðfram ströndinni og gengur fram hjá stóru skilti þar sem stendur: „Munið skotheldan klæðnað“.

Undir yfirborðinu

Gleðin, stoltið, heilbrigðið og litadýrðin sem birtist okkur í Sochi umhverfis ólympíuleikana máist fljótt af þegar við kíkjum undir yfirborðið og áttum okkur á ranglæti sem stjórnvöld beita ólíka hópa fólks, og kreppandi afleiðingum þess að virða ekki manneskjuna, líf hennar og frelsi.

Það er oftar en ekki veruleikinn sem blasir við þegar við yfirgefum hið fínpússaða yfirborð spariviðburða sem stjórnvöld og peningaöfl hafa hannað og mótað. Þegar við erum hins vegar stödd í dýrðinni, er auðvelt að gleyma því að í grenndinni ríkir ekki sama gleðin og áhyggjuleysið. Við horfðum á setningarathöfnina í Sochi, heilluðumst af sýningunni sem var sett á svið og viljum helst ekki leiða hugann að eymd og erfiðleikum allt í kring. Við viljum frekar setja okkur inn í hverjir eiga mestan möguleika á að vinna til verðlauna og njóta spennunnar og gleðinnar sem fylgir sjónarspilinu. Þetta á ekki bara við Sochi heldur alla þessa alþjóðlegu peningaknúðu íþrótta- og tónlistarviðburði sem er sjónvarpað út um allan heim, styrktir upp á bak af Coca-Cola og McDonalds en miðla engu af veruleika karla, kvenna og barna sem hafa jafnvel þurft að gjalda fyrir það að búa í húsum sem þarf að rífa til að koma fyrir glæsilegum mannvirkjunum.

Ljós dýrðarinnar

Hvers vegna höfða svona skrautsýningar til okkar? Erum við ekki svolítið veik fyrir því að fá birtu í augun og trúa því að allt sé í himnalagi? Hvers vegna þarf alltaf að vera að minna á það sem fer aflaga og er í klessu? Getum við ekki bara notið þess fallega og góða sem við fáum að hafa fyrir augunum?

Nákvæmlega svona leið Pétri, Jakobi og Jóhannesi, lærisveinunum sem Jesús tók með sér upp á fjallið háa, í guðspjalli dagsins. Þar gerist eitthvað fyrir augunum á þeim sem er lýst þannig i guðspjallinu að allt í einu hafi þeim birst löngu dauðir spámenn og þeir verið á spjalli við Jesú, sem lýstist allur upp og var alls ekki líkur sér. Þetta fannst þeim æði. Þetta var sýning í lagi. Þetta var allt í senn, staðfesting á því að þeir væru einhvers virði, að fá að upplifa eitthvað svona alveg spes, og umbun fyrir að vera í rétta liðinu, að fá að vera nálægt aðal köllunum.

Þetta var svo gott og svo meiriháttar að það fyrsta sem þeim datt í hug var að slá upp tjaldbúðum og halda kyrru fyrir uppi a fjallinu, baðaðir í birtu dýrðarinnar, fjarri subbulegum veruleika hversdagsins. Og við getum ekkert láð þeim þessi viðbrögð því við ættum að kannast við þau hjá okkur sjálfum. Við viljum vera þar sem okkur líður vel, þar sem við finnum til okkar og ekki er verra að vera nálægt valdinu og þeim sem það hafa.

Niður af fjallinu

En þetta var ekki hugsun Jesú. Fyrir hann var uppákoman á fjallinu staðfesting á köllun hans að þjóna heiminum og manneskjum í neyð. Til þess kom hann í heiminn – en ekki til að einangra sig uppi á fjalli og láta dást að sér.

Ef við lesum örlítið lengra í kaflanum, sjáum við að strax og þeir koma niður af fjallinu, mætir þeim maður í öngum sínum, með sjúkt barn sem enginn hefur getað læknað eða líknað. Ráðaleysið og þjáningin er allsráðandi og himnasælan sem lærisveinarnir höfðu upplifað augnablikum áður er víðs fjarri. En þar er Jesús hann sjálfur, líkur sjálfum sér, og hann gengur inn í aðstæður ótta og skorts með umhyggju og ábyrgð. Þarfir annarra eru í forgrunni, litlu skrefin í áttina að því að bæta líf annarra skipta hann meira máli heldur en að þiggja aðdáun fylgjenda sinna og tjilla með öðrum leiðtogum.

Það er þetta sem gerir Jesú að leiðtoga sem er þess virði að fylgja og leyfa að móta líf sitt. Hann tekur aðstæður manneskjunnar alvarlega og tekur þarfir hennar fram yfir eigin hagsmuni. Það sjáum við ítrekað á því hvernig Jesús mætir fólki í guðspjöllunum.

Ólíkir leiðtogar

Það eru margir sem gera kröfu og tilkall til að vera leiðtoginn sem nýtur aðdáunar og hollustu, og beita til þess ólíkum meðulum. Þessa dagana kemur Vladimir Pútín óneitanlega i hugann, maðurinn á bak við Sochi leikana og sá sem ber mikla ábyrgð á kerfi og andrúmslofti sem lætur frelsi og mannhelgi fólks sér í léttu rúmi liggja.

Eitt stækasta dæmið um mannfyrirlitninguna sem ræður ríkjum í Rússlandi Pútíns eru lög sem kreppa að hinsegin fólki, eins og við höfum verið margminnt á í umfjölluninni um Sochi. En meðferðin á samkynhneigðum og hinsegin fólki er aðeins toppurinn á ísjakanum þar sem undir yfirborðinu grasserar kerfisbundin misbeiting valds gegn minnihlutahópum og þeim sem eru merktir sem óvinir ríkisins.

Eitt af því sem afhjúpar valdalosta Pútíns er hvernig ýtt hefur verið undir persónudýrkun á honum í Rússlandi. Myndskeið og ljósmyndir sem draga athygli að líkamlegu atgervi hans og karlmannlegum lifstíl valda kannski flissi og furðu á vesturlöndum en bera vitni grjótharðri og alvarlegri tilraun til að móta huga fólks til fylgni og hollustu við hinn mikla leiðtoga sem stjórnar með harðri hendi.

Pútín kann vel við sig á fjallinu í ummyndunarljómanum þar sem hann berst við bjarndýr ber að ofan og ræðir við þjóðarleiðtoga um sameiginlega hagsmuni. Hann lætur sig engu varða hvernig þau sem búa í kring hafa það eða hvort þeirra mannréttindi og hagsmunir eru í heiðri hafðir. Pútín vill bara vera tilbeðinn í ljóma ummyndunarinnar, þar sem hann líkist frekar guðlegri veru heldur en mannlegum stjórnmálamanni. Hann kann því vel að vera umkringdur aðdáendum sem spyrja ekki erfiðra spurninga eða leiða honum fyrir sjónir ömurlegar afleiðingar harðstjórnar hans.

Hér er munurinn á leiðtoganum sem hugar bara að eigin dýrð og þeim sem afneitar henni og heldur áfram að þjóna manneskjum og rétta þær við. Í dag íhugum við og njótum þess sem opinberunin á fjallinu kennir okkur. Jesús er leiðtogi sem þjónar öðrum og mætir fólki af virðingu og kærleika. Mættum við taka okkur HANN til fyrirmyndar og fylgja honum niður af fjallinu og inn í lífið með öllum þess áskorunum og erfiðleikum. Mættum við öðlast trú og von á vald kærleikans sem er mestur – en ekki freistast til að dvelja í nálægð valdsins sem þjónar engu nema sjálfu sér.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.