Altarisganga – græn í garði Guðs

Hér er form fyrir altarisgöngu sem er skrifuð til að nota í messu á Æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar sem er haldinn 2. mars í ár. Þessi altarisganga gerir ekki kröfu um að vígð manneskja stjórni henni, heldur getur það verið unglingur eða leiðtogi í æskulýðsstarfinu. Ég birti hana sem tilbeiðsluráð hér á vefnum, til notkunar í kirkjunum.

Altarisgangan skiptist í nokkra hluta:

  • syndajátningu (og aflausn)
  • friðarkveðju
  • innsetningarorð um brauð og vín
  • faðir vor
  • brauði og víni/vínberjum deilt

Altarisgangan gerir ráð fyrir að söfnuðurinn færi sig um stað. 1. stöð er við inngang kirkjunnar, 2. stöð við skírnarfontinn, 3. stöð í kringum altarið.

Altarisgangan er hluti af þemamessu sem hefur yfirskriftina Græn í garði Guðs og tekur uppsetningin mið af því. Eins og allar altarisgöngur er hún haldin til minningar um síðustu kvöldmáltíð Jesú með lærisveinum sínum á skírdagskvöld.

Orðin í atferlinu eru sótt í orð ritningarinnar þar sem Jesús talar um sig eða vísað er til samfélags trúaðra. Þannig miðlar altarisgangan leyndardómi trúarinnar um brauð lífsins sem gefur heiminum líf, til þeirra sem taka á móti í trú.

1. stöð (við inngang)

Syndajátning

L: Þegar peningarnir fara að stjórna okkur

S: miskunna þú oss

L: Þegar okkur mistekst að jafna kjörin

S: miskunna þú oss

L: Þegar við metum fólk eftir stöðu þess og eigum

S: miskunna þú oss

L: Þegar við horfum fram hjá þeim fátæku

S: miskunna þú oss

L: Þegar kerfið okkar viðheldur ranglætinu

S: miskunna þú oss

L: Þegar bilið milli ríkra og fátækra eykst

S: miskunna þú oss

L: Þegar við kaupum, notum og hendum, hugsunarlaust

S: miskunna þú oss

L: Þegar við sóum auðæfum jarðarinnar, gjöfum þínum

S: miskunna þú oss

L: Þegar við játum syndir okkar segir Jesús: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“ (Jh 8.1)

S: Amen

2. stöð (við skírnarfont)

Friðarkveðja 

L: Jesús sagði við lærisveina sína, áður en hann borðaði með þeim eftir upprisuna: „Friður sé með yður „(Lk 24.37). Óskum núna hvert öðru friðar Drottins.

Viðstaddir heilsa hvert öðru með orðunum Friður sé með þér. (Þar sem passar má umbreyta handabandi í friðarknús.

3. stöð (við altarið)

Borðsamfélag (hér er hægt að hafa hefðbundna altarisgöngu eða styðjast við eftirfarandi)

Á altari standa körfur/skálar með brauðmeti og vinberjum. Vatnskanna, vínflaska og hveiti/korn mega líka sjást. Myndum hring í kringum altarið eða hálfhring fyrir framan það.

L: Manneskjan sáir og Guð gefur sól, regn og vöxt. Manneskjan uppsker og Guð gefur kunnáttu til að varðveita og auka næringu og líf. Manneskjan bakar brauð og Guð gefur henni samfélag til að njóta.

S: Drottinn, gef okkur ætíð þetta brauð. (Jh 6.34)

L: Jesús sagði: Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs. (Jh 6.51)

S: Af því að brauðið er eitt, erum vér hin mörgu einn líkami því að vér eigum öll hlutdeild í hinu eina brauði. (1 Kor 10.17)

L: Jesús sagði: Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum.

S: En án mín getið þér alls ekkert gert. (Jh 15.5)

A: Faðir vor….

Leiðtogi lætur brauðkörfuna ganga og hver og einn brýtur sér af brauðinu. Sama er viðhaft við vínberin – eða bikar af víni ef það hentar. 

Að brauðsdeilingunni lokinni er gengið til sætis að nýju og sálmur sunginn.

Altarisganga – græn í garði Guðs (pdf)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.