Gleðidagur 17: Megrunarlausi dagurinn

Sautjándi gleðidagur er megrunarlausi dagurinn. Í tilefni af honum skrifuðum við þennan pistil sem birtist í Fréttablaðinu. Við viljum einnig deila honum með ykkur hér.

Af öllum stærðum

Venus frá Willendorf.
Venus frá Willendorf er þekkt höggmynd sem er talin vera gerð frá 25000-28000 fyrir okkar tímatal.
Kona um þrítugt kaupir inn. Hún heyrir pískur og þegar hún lítur upp sér hún ungt fólk sem tekur myndir af henni með símunum sínum. Hún veit hvað vekur athygli þeirra en bregst ekki við. Hún klárar innkaupin og segir manninum sínum ekki frá því sem gerðist fyrr en þau koma heim. Hún skammast sín og grætur.

Karl á þrítugsaldri er úti að ganga með hundinn sinn. Maður sem hann mætir snýr sér við, tekur símann upp úr vasanum og smellir af. Sá heldur sína leið og hundaeigandinn klárar hringinn og fer síðan heim. Hann segir engum frá því sem gerðist.

Þetta eru sannar sögur frá Íslandi í dag. Í báðum tilvikum er um að ræða fólk í mikilli yfirþyngd. Þau eru mjög meðvituð um hvað þau eru stór og verða fyrir fordómum vegna þess á hverjum degi. Stærðin þeirra kallar fram viðmót sem mótast af neikvæðri sýn á stórt fólk. Það mótar þjónustu í búðum, veitingastöðum og afgreiðslustofnunum. Lítilsvirðing snýst jafnvel upp í ofbeldi eins og í dæmunum hér að ofan, þegar þau verða skotspónn ókunnugra og eru sett í stöðu sem niðurlægir og meiðir.

Það þarf að skera upp herör gegn fitufordómum. Megrunarlausi dagurinn er m.a. haldinn til að vekja athygli á þjáningum sem hljótast af þráhyggju um grannan vöxt og almennri andúð á fitu. Við erum hvött til að sjá fyrir okkur veröld þar sem fólk í ólíkum stærðum er metið fyrir hvað það er en ekki hvort það er feitt eða grannt.

Yfirvöld þurfa líka að horfast í augu við veruleika fólks í ofþyngd. Ástæðurnar eru margslungnar og ofþyngdin leiðir til vandamála af félagslegum, heilsufarlegum og tilfinningalegum toga. Við því þarf að bregðast.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.