Gleðidagur 48: Póstkort frá Sardiníu

Póstkort frá Sardiníu

Vonin er eitt af því sem við tölum um þegar börn eru skírð. Nánar tiltekið um þann hluta uppeldisins að ala börnin okkar upp á vonarríkan hátt þannig að þau horfi eða geti alltaf horft vongóð til framtíðar og finni sig aldrei á þeim stað að þykja öll sund lokuð. Þetta er rauður þráður í kvikmyndinni Vonarstræti sem við sáum í gær. Þetta er frábær kvikmynd sem við hvetjum alla lesendur bloggsins til að sjá í bíó.

Vonin í myndinni birtist meðal annars á formi póstkorts frá eyjunni Sardiníu sem er lýst sem besta stað í heimi. Þangað dreymir rithöfundinn Móra um að komast og drauminum deilir hann með Eik vinkonu sinni. Ætli við þurfum ekki öll að eiga okkar Sardiníu, en það er ekki nóg að dreyma bara, við þurfum líka að komast þangað. Gjarnan með fólkinu sem við elskum.

Á fertugasta og áttunda gleðidegi erum við vonarrík um leið og við þökkum fyrir snilligáfu leikara eins og Þorsteins Bachmann og Heru Hilmarsdóttur og kvikmyndagerðarfólks eins og Baldvins Z sem færa okkur snilldarverk eins og Vonarstræti.

Gleðidagarnir eru fimmtíu og standa frá páskum til hvítasunnu. Einu sinni á dag deilum einhverju uppbyggilegu og þakkarverðu með lesendum bloggsins okkar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.