Eitt hundrað sjötíu og sex orð um sparnað og svita

Það er inni að hjóla í Reykjavík.

Sífellt fleiri kjósa hæga lífsstílinn og hjóla til og frá vinnu allan ársins hring. Reiðhjólið er líka ein einfaldasta og skjótvirkasta aðferðin til að auka ráðstöfunartekjur heimilisins verulega. Það getur jú munað allt að 100 þúsund krónum á mánuði að vera á bíl eða hjóli þegar allt er talið með.

Ljós á reiðhjóli
Í skammdeginu þurfa að vera góð ljós á hjólinu.

Sumir klæða sig í hjólagalla, gjarnan úr spandexi, fara í sérstaka hjólaskó, og stíga svo upp á létt og hraðskreitt götuhjól sem má nota til að komast hratt og örugglega milli staða.

Aðrir vilja vera í skrifstofugallanum og velja sér þyngra borgarhjól með færri gírum. Á slíku hjóli situr hjólreiðamaðurinn uppréttur, tekur á sig mikinn vind og kemst hægar yfir, en fær um leið tíma til að upplifa og íhuga meðan á ferðinni stendur.

Allir njóta þess að upplifa borgina okkar frá öðru sjónarhorni og renna sína leið framhjá umferðarteppunum milli átta og níu og fjögur og fimm. Koma kannski svolítið sveittari heim en alveg örugglega glaðari.