Viltu prófa að þegja í heila klukkustund?

Viltu vera hluti af alveg sérstakri guðsþjónustu, sem fer fram í kyrrð og íhugun? Laugardaginn 29. nóvember verður guðsþjónusta að hætti kvekara í safnaðarheimili Laugarneskirkju.

Kvekarar eru kristin kirkjudeild sem sker sig mjög úr í flóru kristinna safnaða, sérstaklega þegar kemur að helgihaldinu. Enginn einn leiðir stundina, engin tónlist er leikin, ekkert þarf að tala. Stundin fer þannig fram að við setjumst á stóla sem er raðað í hring, í miðjum hringnum er lítið borð með blómum og lesefni sem má blaða í á meðan stundinni stendur.

Vina- og friðarstund í Laugarneskirkju
Það er gott að taka frá tíma til að sitja og íhuga í kyrrðinni.

Ef einhver finnur hjá sér að deila bæn eða ritningarversi má gera það. Það er líka partur af prógramminu að standa upp og hreyfa sig, fá kannski sér vatn að drekka og gera það sem líkaminn kallar á.

Stundin tekur u.þ.b. klukkutíma og á eftir verður tími fyrir smá hressingu og samtal. Guðsþjónustan er í umsjón Kristínar og David Noble sem er einn af messuþjónum Laugarneskirkju. Hann tilheyrir trúfélagi kvekara í heimalandi sínu, Englandi.

Húsið opnar kl. 11, stundin hefst kl. 11.30. Það væri gaman að sjá þig.