Lestur á 33 snúningum

Táningabók

Sigurður Pálsson:

Eitt lærði ég tiltölulega fljótt: að lesa ljóðtexta hægt. Það er ekki einhvers konar vingjarnleg ráðlegging sem engu máli skiptir, það skiptir öllu máli.

Gömlu plötuspilararnir voru með mismunandi stillingar, ein fyrir 33-snúninga plötur, önnur fyrir 45-snúninga (og ein fyrir gömlu 78-snúninga plöturnar).

Prófið að setja 33-snúninga plötu á hraðann 45. Það heyrist vissulega eitthvað en það er ekki tónlist. Sama gerist ef þið lesið ljóðtexta á 45. Þið sjáið einhver orð á stangli en ekki merkingu, tilfinningu.

Einfaldur prósi, venjulegar glæpasögur, framvindudrifnar línusögur skulu lesnar á 45, það hefur ekkert upp á sig að lesa þær á 33.

Ég hygg að mikið af misskilningi fólks gagnvart ljóðtextum sé í raun innstillingaratriði, mótttökutækin eru vitlaust stillt. Leshraðinn er vitlaus. (Táningabók, s. 92-93)

Ætli þeð megi ekki heimfæra þessa líkingu skáldsins á Biblíuna. Suma texta hennar má lesa á 45-snúningum, aðra þarf að lesa á 33-snúningum. Það mætti kannski líka hugsa þetta í samhengi við internetið þar sem texti er stundum skimaður en ekki lesinn. Mætti jafna slíku við 78-snúninga lestrarhraða?