Dagur vonar og væntinga

Morgunbæn á Rás 1, mánudaginn 12. janúar 2015.

Góðan dag kæri hlustandi.

Ég heilsa þér í upphafi vinnuvikunnar og vona að nóttin hafi verið þér góð.

Máltækið segir okkur að mánudagar séu til mæðu en kannski eru þeir fyrst og fremst dagar vonar og væntinga. Það er gott að ganga til móts við nýja viku með von í hjarta og væntingar um það góða sem dagarnir geta falið í sér. Það eflir okkur til góðra verka. Þannig líkjumst við líka börnunum sem eru jafnan opin gagnvart heiminum og mannfólkinu.

Í Markúsarguðspjalli er sagt frá samtali Jesú og lærisveinanna um börnin. Við lesum þennan texta alltaf þegar börn eru borin til skírnar og í dag langar mig að lesa hann fyrir þig:

„Menn færðu börn til Jesú að hann snerti þau en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það sárnaði honum og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég ykkur: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn mun aldrei inn í það koma.“ Og Jesús tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.“ Mrk 10.13-16

Hérna erum við minnt á mikilvægi barnanna og mikilvægi þess að varðveita barnið í okkur sjálfum. Við skulum gera það í dag.

Ég óska þér hugrekkis í dag og bið þess að þú gangir óttalaus til verkefna dagsins og vikunnar, mót því sem er óþekkt og gæti jafnvel vakið með þér áhyggjur.

Við skulum biðja saman:

Góði Guð, viltu vera með okkur í þessari vinnuviku og vera með þeim eru án atvinnu og hafa áhyggjur af því. Viltu styðja þau sem eru stödd í endurhæfingu og læknismeðferð. Viltu vera með öllum sem halda af stað í skólann sinn þennan morgun. Vernda öll börn, sérstaklega þau sem búa við erfið kjör. Opnaðu augu okkar fyrir þjáningu annarra og gefðu okkur hugrekki til að koma þeim til hjálpar. Amen.

Biðjum saman bænina sem Jesús kenndi okkur:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
að eilífu.
Amen.

Nú höldum við út í daginn. Megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.