Þegar okkur fallast hendur

Morgunbæn á Rás 1, þriðjudaginn 13. febrúar 2015.

Góðan dag kæri hlustandi.

Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið endurnærandi og góður. Framundan er dagur sem líkast til er fullur af verkefnum eins og aðrir dagar. Kannski eru þau spennandi og vekja með þér tilhlökkun. Kannski eru þau erfið og vekja með þér ugg.

Mig langar að lesa fyrir þig texta um Elía spámann. Hann átti fyrir höndum langa leið og honum féllust hendur.

Síðan lagðist Elía þar fyrir og sofnaði. En skyndilega kom engill, snerti hann og sagði: „Rís upp og matast.“ Hann litaðist um og sá þá glóðarbakað brauð og vatnskrukku við höfðalag sitt. Hann át og drakk og lagðist síðan fyrir aftur.
Þá kom engill Drottins öðru sinni, snerti hann og sagði: „Rís upp og matast. Annars reynist þér leiðin of löng.“ Hann reis upp, át og drakk. Endurnærður af máltíðinni gekk hann í fjörutíu daga og fjörutíu nætur þar til hann kom að Hóreb, fjalli Guðs. 1Kon 19.4-8

Kannski líður stundum þér eins og Elía spámanni sem fannst hann ekki geta haldið áfram og þarft á öðrum að halda. Ef sú er raunin vona ég að þú mætir engli í dag, sem gefur þér að borða og hjálpar þér á leiðinni.

Kannski ert í hlutverki engilsins sem hreyfir við öðrum, gefur þeim að borða, og gefur þannig kraft til verkefna sem eru framundan.

Á langri ævi finnum við okkur flest í báðum hlutverkum – hlutverki þess sem þiggur og þess sem gefur. Þannig er lífið.

Við skulum biðja saman:

Hljóðlega sest ég upp og horfi til himins
á dimmuna víkja og birtuna koma.
Dagurinn opnast fyrir mér,
ferskur, bjart, nýr,
og ég bið þig Guð, að gæta mín
í öllu sem bíður mín.

Förum saman með bænina sem Jesús kenndi okkur:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
að eilífu.
Amen.

Nú höldum við út í daginn, megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.