Ég elska þig

Morgunbæn á Rás 1, miðvikudaginn 21. janúar:

Góðan dag kæri hlustandi.

Ég vona að þú hafir hvílst vel í nótt og að svefninn hafi verið endurnærandi og góður.

Þegar rætt er um ástina eða kærleikann í Biblíunni þá er hún aldrei bara tilfinning. Henni fylgja alltaf aðgerðir og verk. Á sama hátt er ástin í hjónabandi eða sambandi með fleiru en orðum. Hún er tjáð með lífinu öllu. Orðum þurfa að semsagt að fylgja verk sem endurspegla raunveruleika ástarinnar. „Ég elska þig“ segjum við „og ég sýni það með lífi mínu öllu.“
Ást okkar mannfólksins er einskonar eftirmynd af ást Guðs á heiminum. Þess vegna birtist hún í verkefnum sem beinast að velferð annars. Þau ná í raun til allra sem við tengjumst, ekki bara þeirra sem við erum bundin fjölskyldu- eða vináttuböndum. Okkur á að vera annt um velferð alls mannfólks.

Mig langar að lesa fyrir þig einn þekktasta textann um ást í Biblíunni. Hér er ástin kölluð kærleikur og þetta er úr óðinum til kærleikans.

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

Biðjum:

Guð, ég veit að þú hefur sagt okkur að elska þig og elska náungann, að elska náungann eins og okkur sjálf. En stundum er þetta bara svo erfitt. Viltu hjálpa mér að vera farvegur þessarar elsku þinnar í dag, viltu hjálpa mér að elska þig, elska mig sjálfan og elska náungann þannig að elska mín verði til gagns fyrir heiminn allan en ekki aðeins mig. Þess bið ég þig í Jesú nafni.

Við skulum fara saman með bænina sem Jesús kenndi okkur:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
að eilífu.
Amen.

Nú höldum við út í daginn, megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.