Zzzzzzzz

Morgunbæn á Rás 1, fimmtudaginn 22. janúar:

Góðan dag kæri hlustandi.

Svefninn er okkur mannfólkinu nauðsynlegur. Við þurfum að hvílast til að geta tekist á við annir dagsins. Stundum kemur hann fljótt og við svífum til móts við draumana jafnharðan og lagst er á koddann. Stundum kemur hann seint eða jafnvel ekki og nóttin verður löng og jafn annasöm og dagarnir. Kannski er ástæðan sú að áhyggjur þjaka. Kannski af því að verkefnin eru svo mörg.

Ég vona að nóttin hafi verið þér góð og endurnærandi, að þú hafir fengið þar kraft til góðra verka í dag. Ef sú var ekki raunin þá óska ég þér þess að dagurinn í dag verði til að leysa úr áhyggjum og sinna verkefnum þannig að þegar nóttin skellur á komi svefninn og með honum hvíldin sem þú þarft svo mjög á að halda.

Mig langar að lesa fyrir þig úr nítugasta og fyrsta Davíðssálmi, þar sem segir frá þeim sem hefur skjól af Guði:

„Sá er situr í skjóli Hins hæsta
og dvelst í skugga Hins almáttka
segir við Drottin:
„Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á.“
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt eyðingarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og vígi.“

Biðjum:

Góði Guð, þennan morgun biðjum við um kraft til þeirra þreyttu, og mátt til þróttlausra. Hjálpaðu okkur að muna að vegur okkar er þér aldrei hulinn og að auglit umhyggju þinnar fylgir okkur hvert sem við förum. Leyfðu okkar að vona á þig og fá nýjan kraft svo við þreytumst ekki eða lýjumst.

Við skulum fara saman með bænina sem Jesús kenndi okkur:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.
Fyrirgef oss vorar skuldir,
svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum.
Og eigi leið þú oss í freistni,
heldur frelsa oss frá illu.
Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin
að eilífu.
Amen.

Nú höldum við út í daginn, megi æðruleysi, kjarkur og vit, leiðbeina þér í önnum og áskorunum.