Biblíublogg 4: Lifandi og túlkað trúarrit

Í öðru Biblíublogginu skrifuðum við að aðferðarfræði kristins fólk við að lesa Biblíuna fælist í að nota hana sjálfa sem gleraugu eða linsu.

Þetta er gert í hverri einustu guðsþjónustu. Þar eru lesnir þrír textar úr Biblíunni, einn úr Gamla testamentinu og tveir úr Nýja testamentinu. Að auki eru ótal vísanir í texta Biblíunnar í bænum safnaðarins og öðrum liðum messunnar.

Annar textinn úr Nýja testamentinu er sóttur í guðspjöllin. Hann hefur sérstöðu því þar segir frá lífi og starfi Jesú. Iðulega geymir hann einnig einhver af orðum Jesú. Hinir lestrarnir tveir voru valdir með hliðsjón af guðspjallinu og efni þess.

Hver einasti helgur dagur ársins á sitt sett af lestrum. Reyndar eru til fleiri en eitt sett. Núna notar þjóðkirkjan til dæmis tvær textaraðir.

Aðferðarfræði guðsþjónustunnar felst í því að hlusta og meðtaka orð Biblíunnar úr fleiri en einni átt. Það er hlutverk prédikarans að túlka merkingu lestranna þriggja og tengja þá við líf og aðstæður þeirra sem hlusta.