Biblíublogg 8: Ég stend með þér

Í tuttugasta og fimmta kafla Matteusarguðspjalls eru talin upp verk sem eiga að móta viðhorf okkar til náungans. Þau útskýra hvað náungakærleikur merkir.

Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín. (Matt 25.35-36)

Þessi verk hafa í trúarhefðinni verið nefnd miskunnarverk og þau standa fyrir ábyrga afstöðu til náungans og mynda grundvöll samhjálpar og velferðar.

Fyrir nokkrum árum var leitað til almennings að svari við spurningunni hver eru miskunnarverk samtímans. Niðurstaðan var þessi: Þú ert í hópnum, ég stend með þér, ég tala vel um þig, ég geng með þér dálítinn spöl, ég deili með þér, ég heimsæki þig, ég bið fyrir þér.

Hvort tveggja, hin klassísku miskunnarverk og hin könnuðu miskunnarverk eru gagnleg þegar kemur að því að skilja hvað náungakærleikur og umhyggja merkir fyrir okkur sem tilheyrum hinni kristnu kirkju.