Biblíublogg 13: Jörðin er full af ofbeldi

Ein af sögunum sem iðulega eru kenndar og endursagðar í barnastarfi kirkjunnar er sagan um Nóa og örkina. Kannski er þetta þekktasta saga Gamla testamentisins í dag.

Á Nóasögunni eru ótal hliðar sem höfða til okkar á ólíkan hátt á ólíkum tímum. Meðal þeirra vinkla sem lyft hefur verið upp er vistfræðilega sjónarhornið sem útskýrir flóðið með því að benda á sjálfseyðingu manneskjunnar og ofbeldi gagnvart lífríkinu í heild og sín á milli.

Eitt af því sem er óendanlega heillandi við að rannsaka ritningarnar er að spá í einstök orð og merkingarsvið þeirra. Í aðdragandi sögunnar um Nóaflóðið og örkina, er að finna setningar um ástandið sem verður til þess að jörðin eyðist í flóðinu. Í íslensku Biblíunni hljómar þessi setning úr 1. Mós 6.13 svona:

„Ég hef ákveðið endalok allra manna á jörðinni því að jörðin er full orðin af ranglæti þeirra vegna.“

Í flestum enskum þýðingum er hins vegar talað um violence eða ofbeldi í þessu samhengi. Dæmi er í New Revised Standard Version svona:

„I have determined to make an end of all flesh, for the earth is filled with violence because of them“.

Og í gömlu góðu King James Version er setningin svona:

„The end of all flesh is come before me; for the earth is filled with violence through them“.

Það er gaman og gagnlegt að velta fyrir sér hughrifum sem orðið ofbeldi annars vegar og orðið ranglæti hins vegar vekur. Ofbeldi er einhvern veginn sterkara og kemur ansi mikið heim og saman við það sem við fréttum um ástandið í heiminum í dag.

Er ekki jörðin einmitt full orðin af ofbeldi mannanna vegna?