Biblíublogg 14: Guð í rauðri skikkju

1. Mósebók í Biblíu Lúthers

Eitt af því sem siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther lagði áherslu á var að Biblían væri þýdd á móðurmálið. Hann sinnti þessu þýðingarstarfi sjálfur, þýddi Nýja testamentið á meðan hann var í útlegð í kastalanum í Wartburg. Það kom út árið 1522. Svo hélt hann áfram þýðingarstarfinu í samvinnu við aðra eftir að hann sneri aftur til Wittenberg. Biblían öll kom svo út árið 1534.

Myndin hér að ofan sýnir eina síðu úr Biblíu Lúthers, þetta er upphaf fyrsta kafla fyrstu Mósebókar þar sem við lesum fyrri sköpunarsöguna. Hér má sjá fallegar litmyndir sem eru bæði til prýði og skýringar. Heilsíðan til vinstri sýnir Guð í rauðri skikkju sem er að móta heiminn. Myndin kallast á við sjö daga skemað sem er lýst í sögunni. Hún auðveldar skilning og lestur og vitnar líka um heimsmynd 16. aldarinnar.