Biblíublogg 15: Hlustað frekar en lesið

Það er áhugavert að hafa í huga þegar við veltum fyrir okkur Biblíunni og áhrifum hennar í kristinni kirkju að lengst af hafði fólk ekki sjálft aðgang að henni, hvorki í hlutum eða heild. Það var því ekki um að ræða að fólk læsi sjálft úr henni eða hefði rit hennar við hendina til að fletta í.

Biblían var þar að auki lengst af bara til á latínu, sem var hið opinbera mál rómversk-kaþólsku kirkjunnar, og enginn almenningur talaði. Bækur voru fyrir tíma prentiðnaðarins líka fádæma dýrar og fágætar. Það er því ýmislegt sem bendir til þess að margar kirkjur hafi heldur ekki átt sína eigin Biblíu – og að prestarnir hafi notað og stuðst við einstaka texta úr henni í öðrum ritum, eins og messubókum og guðspjallabókum, sem voru minni í sniðum og aðgengilegri en sjálf Biblían.

Fyrsta íslenska Biblían sem kom út á Hólum árið 1584 var heldur engin smásmíði. Fyrir utan hvað bókin hefur verið dýr og á fárra færi að eignast hana, var heldur enginn leikur að burðast með hana, hreint líkamlega séð.

Hvernig lærði þá fólks sögur og orð úr Biblíunni, fyrir tímana sem við þekkjum best, þegar Biblían er til í aðgengilegu og ódýru formi sem allir hafa aðgang að, hvort sem er í prentuðu formi eða í gegnum snjalltæki? Með því að hlusta á orð hennar lesin í bænastundum og messuhaldi í kirkjunum. Eða með því að hlusta á hugvekjur og bænir byggða á textum hennar, sem rötuðu í hómilíubækur og skáldskap.

Biblían hefur því lengst af verið tekin í gegnum eyrun frekar en augum.