Ósíuð aðventa 8: Öðruvísi innkaupalisti

Jólastjarna í glugga

Við höfum tröllatrú á listum og því að gera sér to-do lista fyrir minni og stærri verkefni sem bíða manns. Listagerðin gagnast til að fá yfirsýn yfir það sem þarf að gerast, hjálpar til við að hvorki gleyma né sjást yfir það sem þarf að gerast til að hnika málum í rétta átt.

Að skrifa niður lista með því sem þarf að gera, og merkja svo við eftir því sem verkinu miðar er verkefnastjórnun húsmóðurinnar og óskeikul aðferðarfræði. Innkaupalistinn er svo alveg sérstakt fyrirbæri, á hann ratar það sem okkur finnst vera nauðsynlegt í mat, drykk og upplifun, t.d. fyrir jólinn.

Við erum heldur ekkert mjög gömul þegar við byrjum að skrifa niður lista yfir það sem okkur langar til að fá í jólagjafir, á hann skrifum við óskir um það sem við viljum eignast, hversu raunhæft eða óraunhæft það kann að sýnast.

Það er líka hægt að nota listann á annan hátt og í áttunda dagatalsglugganum langar okkur að velta upp nýrri nálgun á gamla góða verkefna- og innkaupalistann. Hún er þessi:

Skrifaðu niður, ekki það sem þig langar að eignast eða kaupa, heldur það sem þig langar til að verði, t.d. í samskiptum þínum við þau sem standa þér næst.

Skrifaðu niður það sem þig langar til að trúa á, eða vona.

Vertu djarfur/djörf í óskum þínum, sjáðu fyrir þér það sem þig langar að geti gerst, og settu á listann.

Kannski byrjar það að gera heiminn betri á því að gera lista yfir það sem okkur langar til að sjá og gerast?