Bæn við jólatréð – tilbeiðsluráð #1

Jólatré

Hér er hugmynd að stuttri stund við jólatréð, þegar ljósin eru tendruð, hvort sem er í kirkjunni eða heima. Hún samanstendur af örstuttri hugleiðingu, ritningarlestri, bæn og söng. Lykilþemu stundarinnar er ást Guðs til heimsins og nærvera Guðs í barninu sem fæddist í Betlehem. Þetta er tilbeiðsluráð #1 á blogginu okkar.

Jólatré

Það er hægt að láta einn leiða stundina og lesa textana eða skipta þeim niður og leyfa fleirum að taka þátt.

Sálmurinn sem er sunginn er númer 94 í sálmabókinni en hér fylgja líka með tvö vers sem er ekki að finna þar.

Upphaf

Lesari: Í upphafi skapaði Guð heiminn. Guð sá að heimurinn var góður. Guð setti tré í miðju Paradísar sem bar með sér visku, þekkingu og góða hluti og þetta tré var gjöf til allra.

Jólatréð minnir okkur á þetta tré.

Ást Guðs til heimsins birtist í litla barninu sem fæddist í Betlehem. Barnið er von heimsins um eilíft líf.

Jólatréð minnir okkur á þá von.

Ritningarlestur: Gen 2.4-9

Lesari: Á þeim degi er Drottinn Guð gerði himin og jörð var enginn runni merkurinnar til á jörðinni og engar jurtir spruttu því að Drottinn Guð hafði ekki enn látið rigna á jörðina. Og þar var enginn maður til þess að yrkja landið. En móðu lagði upp af jörðinni sem vökvaði allt landið. Þá mótaði Drottinn Guð manninn af moldu jarðar og blés lífsanda í nasir hans. Þannig varð maðurinn lifandi vera.

Þá plantaði Drottinn Guð aldingarð í Eden, í austri, og setti þar manninn sem hann hafði mótað. Og Drottinn Guð lét spretta af jörðinni alls konar tré, girnileg á að líta og góð af að eta, ásamt lífsins tré í miðjum garðinum og skilningstré góðs og ills.

Bæn

Lesari: Drottinn Guð, skapari alls sem er. Úr þinni hendi þiggjum við lífið og allt sem auðgar, nærir og viðheldur. Takk fyrir þetta tré sem vaxið og dafnað í náttúrunni en við fáum nú að njóta yfir jólin. Lát grænar greinar þess minna okkur á vonina sem sem aldrei deyr. Lát ljósin og skrautið á greinum þess minna okkur á  ástina sem á að prýða hjörtu okkar og heimili. Lát gjafirnar undir greinum þess minna okkur á gjöf Jesúbarnsins til allra barna. Amen.

Ljósin tendruð á jólatrénu.

Sálmur

Jesús, þú ert vort jólaljós,
um jólin ljómar þín stjarna.
Þér englarnir kveða himneskt hrós,
það hljómar og raust Guðs barna.
Skammdegis myrkrið skyggir svart,
ei skugga sjáum þó tóma.
Þú ljósið af hæðum, blítt og bjart,
þú ber oss svo fagran ljóma.

Jesús, þú ert vort jólatré,
á jörðu plantaður varstu.
Þú ljómandi ávöxt lést í té,
og lifandi greinar barstu.
Vetrarins frost þó hér sé hart
og hneppi lífið í dróma,
þú kemur með vorsins skrúð og skart
og skrýðir allt nýjum blóma.

Jesús, þú ert vor jólagjöf,
sem jafnan besta vér fáum.
Þú gefinn ert oss við ystu höf,
en einkum þó börnum smáum.
Brestur oss alla býsna margt.
Heyr barnavarirnar óma.
Þú gefur oss lífsins gullið bjart,
því gleðinnar raddir hljóma.
(Valdimar Briem)

Bæn við jólatréð (pdf)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.