Þess vegna er ég lúthersk

Hér talar Nadia Bolz-Weber, prestur í Lúthersku kirkjunni í Bandaríkjunum (ELCA). Hún er eiginlega ekkert annað en súperstjarna í sínu samhengi (og langt út fyrir það) og dregur fjölda fólks á viðburði þar sem hún talar um trúna sína og lífið.

Nadia er prestur við lútherska kirkju í Denver, Colorado, sem heitir House for All Sinners and Saints. Eins og nafnið gefur til kynna skilgreinir söfnuðurinn sig vítt og breitt og leggur mikið upp úr því að skapa rými og pláss fyrir alla, og fyrir alla reynslu allra sömuleiðis. Nadia gaf út minningabók sína Pastrix í fyrra og hefur farið víða til að kynna bókina og gert það á mjög lifandi hátt.

Á þessu stutta myndskeiði dregur Nadia saman í stuttu máli kjarnann í því sem við getum kallað lútherska kenningu. Hún gerir það á sinn hátt en er mjög kjarnyrt og klassísk.

Inntakið er þetta:

  • Náð Guðs er gjöf sem við þiggjum án þess að bera neinn kostnað af. Náðin er ekki eitthvað sem við vinnum okkur fyrir heldur erum við hreinir þiggjendur.
  • Það er ekki um að ræða andlegan stiga sem við klifrum til að verða betri og betri útgáfa af okkur sjálfum.
  • Það er Guð sem kemur til okkar og endurnýjar okkur, aftur og aftur – það er það sem er kallað dauði og upprisa.
  • Samband manneskjunnar við Guð er þannig háttað að það er alltaf Guð sem kemur til hennar, ekki öfugt.
  • Manneskjan sem á sama tíma og samhliða syndug og réttlætt, alltaf og algjörlega. Það þýðir að ég hef gríðarlega getu til að rífa niður sjálfa mig og aðra en líka gríðarlega getu til að sýna ástúð.
  • Þessi atriði gera það að verkum að ég er lúthersk – hér fann ég orðin yfir það sem ég hef reynslu af úr mínu eigin lífi og veit að eru sannir.

Það er hressandi að hlýða á hvað Nadia Bolz-Weber hefur að segja – njótið!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.