Eru stjúpfjölskyldur normal í kirkjunni?

Unnur Balaka

Við vorum þrír prestar í litlum hópi fagfólks sem sat dagsnámskeið um stjúptengsl í síðustu viku. Námskeiðið var haldið af Valgerði Halldórsdóttur félagsráðgjafa og aðjúnkt við HÍ, sem hefur unnið mikið frumkvöðlastarf í miðlun og rannsóknum á stjúptengslum og stjúpfjölskyldum.

Markmiðið með námskeiðinu var að gefa fagfólki sem vinnur með fjölskyldum í starfi sínu færi á að kynnast helstu þáttum sem hafa áhrif á tengsl og líðan í stjúpfjölskyldum, svo það komist hjá því að auka óvart á streitu í fjölskyldum vegna þekkingarleysis heldur dragi einmitt frekar úr henni. Aukin þekking á sérstöðu stjúpfjölskyldna og á algengum uppákomum í stjúpfjölskyldum gefur fagfólki í fjölskylduvinnu meira öryggi í samstarfi við stjúpfjölskyldur og einstaklinga sem tilheyra þeim.

Við prestarnir vorum þarna í hópi með félagsráðgjöfum, kennurum og hjúkrunarfræðingum, frá ólíkum gerðum stofnanna. Allar þessar stéttir eiga í miklum samskiptum við alls konar fjölskyldur og mæta fólki í stjúptengslum því oft. Eitt af því sem hefur mikil áhrif á líðan einstaklinga og fjölskyldu í streitu eða þegar óvæntar uppákomur verða, er félagslegur stuðningur og viðurkenning. Þarna gegna fagstéttirnar mikilvægu hlutverki.

Fagstéttir eins og prestar, kennarar, ráðgjafar og heilbrigðisstarfsfólk geta aukið á þessa tilfinningu fyrir viðurkenningu og stuðning og normalísera aðstæðurnar með því að velja réttu nálganirnar og réttu spurningarnar í samskiptum.

Við ræddum um hvernig prestar geta normalíserað stjúptengsl í samskiptum okkar við t.d. fermingarbörn og fjölskyldur þeirra. Fyrsta skrefið er að ganga ekki út frá því að foreldrar barna búi saman, og búa skráningarferlið þannig úr garði að það sé eðlilegt að setja inn nöfn allra sem barnið vill. Einnig er mikilvægt að auka ekki á hjálparleysi barna með því að setja þau í aðstæður sem skapa hollustuklemmu. Passa upp á að það séu fleiri en einn miði með upplýsingum sem eiga að rata á heimilin. Gera ráð fyrir því að það séu kannski stjúpa eða stjúpi sem kemur með fermingarbarninu til altaris, ásamt kynforeldrum þess.

Þegar börn búa við streitu vegna ósættis foreldra skiptir líka miklu máli að láta þau finna að aðstæður þeirra, þótt erfiðar séu, geri þau ekki öðruvísi en aðra krakka í hópnum. Þar sem sú staða kemur upp að fjölskyldur halda tvær aðskildar fermingarveislur, er mikilvægt að sú útfærsla sé nefnd þegar tal að undirbúningi veisluhalda er tekið upp. Það eru ótal ástæður fyrir því að tvær fermingarveislur eru haldnar. Það er hvorki betra né verra, það er bara eins og það er.

Fjölskyldur fermingarbarna eru þar að auki sérstakur markhópur fyrir kirkjumiðlun og um að gera að bjóða upp á fræðslu um aðstæður fjölskyldna, rétt eins og umfjöllun um sorg og áföll, vímuefnalausa æsku, kynheilbrigði og annað. Í fyrsta sinn í vetur buðum við fjölskyldum fermingarbarna í Vídalínskirkju í Garðabæ upp á erindi um undirbúning fjölskylduhátíða í samsettum fjölskyldum. Það mæltist vel fyrir og hefur vonandi gagnast fjölskyldum í þeirri stöðu.

Kirkjan og prestarnir geta gert margt til að styrkja félagslega normalíseringu stjúptengsla í samfélaginu í því sem snýr að kirkjulegri þjónustu. Takist það, léttum við á streitu sem skapast vegna hjálparleysis og einangrunar, og styðjum við okkar minnstu bræður og systur.

Myndin fylgir færslunni er af Unni Balöku. Það var fjölskylduhátíð þar sem tvær fjölskyldur mættust.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.