Biblíublogg 26: Biblían er á toppi vinsældarlistans

Í toppsæti vinsældarlista Rásar 2 þessa vikuna trónir lagið Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá með Jónasi Sigurðssyni og ritvélum framtíðarinnar. Lagið var frumflutt í mótmælum á Austurvelli í nóvember og gefið út á þessu ári. Í textanum er vísað í tollheimtumenn (sbr. Matt 9.10), sannleikann (sbr. Jóh 18.38), aldingarðinn Eden (sbr. 1Mós 2-3), gullkálfinn (sbr. 2Mós 32) og svo auðvitað orðatiltækið „af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá“ sem er sótt í 7. kafla Matteusarguðspjalls:

Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá. (Matt 7.15-20)

Þannig getum við sagt að Biblían tróni á toppi vinsældarlista Rásar 2.