Menu

árni + kristín

hjón, foreldrar, prestar

#PrayForParis #PrayForBeirut

Bænastjaki

Lífsins Guð. París og Beirut eru í huga okkar og hjarta.

Við biðjum fyrir þeim sem týndu lífi sínu í gær og fyrradag. Fyrir þeim sem hafa misst ástvini. Fyrir þeim sem lifa í gíslingu og fyrir þeim sem finnst lífið aldrei verða samt. Við biðjum fyrir þeim sem bíða milli vonar og ótta við hlið þeirra sem þau elska og berjast fyrir lífi sínu.

Við biðjum fyrir þeim sem hjálpa, fyrir heilbrigðisstarfsfólki og löggæslu, fyrir þeim sem gegna ábyrgðarstöðum í almannaþágu og taka ákvarðanir í okkar þágu.

Fyrst og síðast biðjum fyrir heiminum okkar, sem þú elskar, en er svo brotinn og varnarlaus. Sendu ljós þitt og kærleika inn í aðstæður myrkurs og ótta. Komdu til okkar þegar við finnum bara reiði og vanmátt, hjálpaðu okkur að finna traust og kærleika í systrum okkar og bræðrum.

Rjúf vítahring ofbeldis og fordóma, gef okkur kraft til að berjast fyrir hinu góða í þágu allra.

Amen.

Þegar þú vaknar

Rowan Williams, fyrrum erkibiskup af Kantaraborg:

So: the regular ritual to begin the day when I’m in the house is a matter of an early rise and a brief walking meditation or sometimes a few slow prostrations, before squatting for 30 or 40 minutes (a low stool to support the thighs and reduce the weight on the lower legs) with the “Jesus Prayer”: repeating (usually silently) the words as I breathe out, leaving a moment between repetitions to notice the beating of the heart, which will slow down steadily over the period.

Það er gott að byrja daginn á hreyfingu og það er gott að hefja hann á bæn. Enn betra er að flétta þetta tvennt saman eins og Williams gerir.

Þegar skammdegið er mest

Þegar skammdegið er mest
kveiki ég aðventuljós og minnist

jólanna sem nálgast …

Jesú sem fæddist í Betlehem …

boðskapar englanna um frið á jörð …

stjörnunnar sem lýsir okkur til Jesú

Megi ljós aðventunnar minna mig á ljós himnanna.

Á öðrum sunnudegi í aðventu langar okkur að deila með þér þessari bæn úr Bænabók barnanna. Guð gefi þér góðan dag.

Bænir í geðveikri messu

Í dag var geðveik messa í Laugarneskirkju. Okkur langar að deila bænarefnum dagsins með lesendum bloggsins.

Geðsjúkdómar

Elsku góði Guð, í dag felum við þér þau okkar sem glíma við eða hafa glímt við geðsjúkdóma. Takk fyrir gjafir þeirra og lærdóm sem þau færa samfélaginu okkar. Umvef þau með ást þinni og umhyggju og lát þau aldrei gleyma að þau eru óendanlega mikilvæg í þínum augum. Styrk aðstandendur og fagfólk og gerðu ráðamenn meðvitaða um ábyrgð og verkefni í málaflokknum. Við biðjum í Jesú nafni.

Ebóla

Almáttugi Guð, við komum fram fyrir þig með áhyggjur okkur út af ebólufaraldrinum sem geisar í Vestur-Afríku og teygir anga sína út um allan heim. Viltu styrkja þau öll sem glíma við sjúkdóminn – þau sem hafa smitast, búa á svæðum þar sem faraldurinn geisar, eiga ættingja sem hafa smitast eða dáið, við biðjum þig sérstaklega fyrir börnum sem hafa misst foreldra sína vegna ebólu. Viltu vera með þeim sem sinna læknis- og hjúkrunarstörfum og berjast við sjúkdóminn. Viltu gefa stjórnvöldum og alþjóðastofnunum visku og dómgreind til að bregðast við hratt og örugglega. Viltu gera okkur öll meðvituð um að það eru ekki Þau sem glíma við ebólu heldur Við öll. Við biðjum í Jesú nafni.

Náunginn

Drottinn Guð, við þökkum þér fyrir allar góðar gjafir sem frá þér eru komnar. Hjálpaðu okkur að nota þær sjálfum okkur og öðrum til blessunar og þínu nafni til dýrðar. Gerðu okkur meðvituð um neyð náungans og gefðu okkur hugrekki til að koma til hjálpar. Takk fyrir listir og listafólk, kennara og umönnunarstéttir, heilbrigðisstarfsfólk og þau sem gæta öryggis. Blessa þau sem hafa tekið að sér ábyrgðarstörf í þágu almennings og gef þeim visku og réttlætiskennd. Við biðjum í Jesú nafni.

Friður

Drottinn Guð, við biðjum fyrir kirkju þinni og öllum konur og körlum sem þjóna þér og útbreiða orð þitt og kærleika. Blessa öll þau sem láta kærleiksboðorðið sem þú gefur okkur móta líf sitt og veru. Í dag þökkum við þér fyrir hana Malölu og það sem hún kennir okkur, nefnilega að friður, samtal og menntun er alltaf betra svar en ofbeldi og yfirgangur. Hjálpaðu okkur að líkjast henni, eins og hún líkist þér. Við biðjum í Jesú nafni.